Of-baldin

Ungir strákar og ungar stelpur eru ekki komin með þann þroska að virkilega gera sér grein fyrir afleiðingum af þeim gjörðum sem þeir framkvæma.  Hormónar flæða og sýndarmennskan er öll í fyrirrúmi.  Ungir piltar ganga um roggnir og ýfa sig alla upp eins og sjá má í dýraríkinu, stúlkunar hópa sig saman og sækja sér líka heim.  Svona er þetta í dag, svona var þetta þegar ég var ung.  Ofbeldið er að taka á sig sterkari mynd því fyrirmyndirnar sem hafðar eru fyrir augum í dag t.d. leikföng, tölvuleikir, bíómyndir og netið, allstaðar er ofbeldið til fyrirmyndar og lítið gert úr því að efla eða þroska með sér góðvild - það virðist koma síðar á ævileiðinni þegar langflestir hafa einhvern veginn orðið fyrir grjót- eða orðakasti.

Ætli það séu allir foreldrar sem vita hvað englarnir þeirra viðhafast í skólanum, krakkarskrattar (ég var einu sinni krakkaskratti) sýna oft annað andit þegar heim er komið, eða hreinlega hverfa á vit eigins heims og heyra ekki þær leiðréttingar sem fullorðna fólkið með reynsluna vill koma áleiðis til þeirra.

Skólavöld hafa oft á tíðum ekki tök á því að taka á málinu nema að vísa frá skóla, sá meiddi verður að kæra og standa með sér og foreldrarnir þurfa að láta krakkana bera ábyrgð á ofbeldi ef þau verða uppvís af þeim.


mbl.is Ráðist með grjóti á 16 ára pilt í FSu á Selfossi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt

Hvað er það sem knýr menn og konur til að leggjast á börn og barnabörn sín?  Er eðlið svona sterkt að siðferðisvitundin getur ekki hamið fólkið.  Öll lýgin, allur feluleikurinn.  Skömmin.  Vanmátturinn.  Stuldur á saklausri æsku. 

Maðurinn hefur verið að verki í áratugi og ekki nappaður fyrr en undir nírætt, betra seint en aldrei.

Samt ótrúlega sárt og sorgmætt hvernig mannfólkið er innrætt.


mbl.is Tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söm hamingja

Ég er söm við mig.  Þrátt fyrir allt sem bjátað hefur á í mínu lífi, tilfinningahrun, barnahrun, efnahagslegt hrun þá hef ég ekki glatað hæfileikanum að hlægja og ands... hafi það að ég hlægji bara ekki meira núna þessa dagana þegar fallvaltleikinn er svona nálægur manni.  Ég komst nefninlega að því að peningar, eignir og endalausar utanlandsferði væru hvorki að gera mig hamingjusamari eða grennri og enn síður yngri.

Núna á ég hláturinn og ég hlæ eins og barn, skellihlæ og slæ á lærið á mér í hlátrasköllunum.  Á eftir fer ég í ómun á höfði og er drulluhrædd við innilokun, eina leiðin til að minnka óttann er að hlægja og þá hringi ég í vinkonu eða vin og hlæ.

En það er ekki hlægjandi að þegar gjaldþrot blasir við ungu fólki með fjölskyldu eða gömlu fólki sem hafa tapað sínu spariféi.  Það er ekki hlægjandi að heimsku (jú, menntað og gáfað fólk getur verið eðlislega heimskt á einhverju plani) stjórnarmanna sem lifa eins og apar í demantsskreyttu búri og halda að þeir eigi allan heiminn afþví þeir sjá ekki lengra en nef þeirra nær.  Það er ekki hlægjandi að eðlilegri manneskju sem breytist í háflvitann Jóakim Önd þegar peningarnir streyma til þeirra.

En, hahahaha... í dag hlæ ég að sjálfri mér og eigin ótta.


mbl.is Segir Íslendinga enn hamingjusama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eymd og hagnaður

Ég ætla að ég verði ekki elt uppi fyrir að hafa skoðun á glæpastarfsemi sem tengist fíkniefnahagnaði.  Þessi andskoti hefur alltaf verið til frá örófi alda.  Brugguðu menn ekki hér á öldum áður?  Á mínum blómaárum var kannabisefnum smyglað til landsins í mismunandi stórum skömmtum - ég þorði aldrei að flytja inn eða út nokkurskonar efni - menn drekka áfengi, reykja ópíum- eða kannabistengdefni, sniffa af bensíni, nota læknadóp og þar frameftir götum. 

Málið er, þarna úti eru vel menntaðir menn með viðskiptavit í bland við brenglaða siðferðisvitund sem nýta sér veikleika þeirra sem eiga erfitt með að lifa daglegu lífi án tilkomu einhverrar vímu.  Þetta er ekki hann illa greindi Jón eða ruglaða Gunna sem skipuleggja starfsemina, þau eru bara burðardýrin sem taka á sig fangelsisdómana.

Glæpastarfsemin er þaulskipulögð af vel gefnu, vel menntuðu fólki sem sjálft kemur ekki nálægt noktun þessara efna þ.e. ef ég hef getið rétt í eyðurnar.

Ég þakka fyrir að hafa ekki snert sopa af vínanda í tæp 30 ár, ekki fengið mér í haus og ekki lagst út í skipulagðan innflutning eins og ég veit að sumir edrú vel gefnir skammlausir fíklar hafa gert.


mbl.is Fíkniefnahagnaði ráðstafað hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Milljarðar boðnir

Ég á ekki til orð og verð að fletta upp í alfræðibók hvaða skoðun ég á að mynda mér á þessari frétt.  Hvaðan koma allir þessir peningar til að fjármagna kaupum á svona risa á Sænska vísu?  Frá Cayman eyjum?

Eða eru menn að hugsa sé þann pókerleik að það þurfi að leggja mikið undir til að vinna lítið?  - Skil þetta ekki og átta mig ekki á hvers vegna ekki er hægt að fá svör frá stjórnvöldum eða þeim sem stjórna fjármálalífi landsins.

Jahérna, ætli ég þurfi ekki að fara að borga hærri tryggingar til að standa straum af þessum kaupum ásamt 329.000 íslendingum (eða hvað er höfðatalan há, það hafa svo margir flutt af landi brott)


mbl.is Bjóða milljarða inn í Moderna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Út á þekju

Maður á ekki að blóta á opinberum vettvangi, á ekki að skrifa helv... og fok... þetta eða hitt.  Ég fæ hræðslukast þegar ég heyri fólk tala um að það eigi ekki fyrir nauðsynjum, geti ekki greitt leiguna og óttist að lenda á götunni.  Er þetta Ísland árið 2009.  Í fyrra vorum við hamingjusamasta, ríkasta og minnst skuldsettasta land á jarðríki ..  Ég veit ekki hversu vel 90 daga stjórn tekst að afstýra þeim hörmungum sem síðasta stjórn stóð fyrir (núverandi ríkisstjórn er stór hluti af síðustu ríkisstjórn).  Einhver kona sagði í Kastljósi um daginn að þegar hún fylgdist með Alþingi þá hefði hún séð fyrir sér krakka í sandkassaleik.  Það eru semsagt fullorðnu börnin sem sjá ekki lengra en nef sitt sem sigla þjóðarskútunni í strand.  Hananú.... og ég gala.


Svíg eða víg

Æi, Ólafur! Nú verður þú að fara að passa hvað þú segir í opinberum boðum.  Það er skammarlegt ef forseti okkar er að verða þjóðinni til skammar.  Ég er farin að halda að allt stjórnkerfi ísland þ.e. fólkið sem þar vinnur séu trúðar og krakkar í sandkassaleik. 
mbl.is Á svig við sannleikann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brottförin

Við lögðumst upp í rúm með þig á milli okkar og þar yfirgafst þú mjög friðsældarlega þetta jarðlíf.  Pabbi þinn tók þig látna í fang sér og gekk með þig um gólf í hinsta sinn.  Fyrir utan herbergið hélt lífið áfram.  Börnin léku sér og sum þeirra grétu.  Öðru hvoru heyrðist glaðlegt skvaldur starfsfólksins.  Á hæðinni fyrir ofan voru iðnaðarmenn að bora og smíða.  Öll deildin iðaði af lífi.  Það var aðeins í herberginu þar sem andvana líkami þinn lá, að þögn og friður réði ríkjum.

 Ég hjálpaði til við að baða litla kroppinn þinn og klæddi þig í betri föt.  Þú varst friðsæl á svipinn og öll þjáning var horfin.  Eins og lítil postulínsbrúða lást þú þarna með kertaljós og rósir við dánarbeð þinn.  Föl fegurð þín var ekki af þessum heimi.

 Ég sakna þín enn 14 árum síðan, og þessi sorg er dýpri en sú sem efnahagshrunið hefur haft á líf mitt.  Ást mín til þín er endalaus og nær langt út fyrir endamörk alheimsins.


Sorgarferli

Vilhjálmur talar um sorgarferli sem kemur í kjölfarið á atvinnumissi og tekur mið af fráfalli föður síns.  Hér get ég verið sammála Vilhjálmi um sorgarferli og doða.  Það eru 14 ár síðan ég missti barnunga dóttur mína, þrem mánuðum síðar móður mína, kisuna mína og 7 mánuðum eftir það nýfædda dóttur.  Ég dofnaði upp og fann ekki fyrir sorginni, hún kom löngu seinna og fylgdi mér eins og þrálátur skuggi, litaði líf mitt dag frá degi með ólíklegum skapbrigðum.  Á þessum tíma rak ég fyrirtæki og gat ekki annað en haldið áfram að reka það, því ég bar líka ábyrgð á lífsafkomu fólks sem ég hafði í vinnu.  Ég var stödd í súrrealískum heimi þar sem ég stóð oft fyrir utan sjálfa mig og horfði á lífið flæða framhjá. Sorgin barði að dyrum reglulega en ég kæfði hana með enn meiri vinnu.  Það komu erfiðleikar í rekstri árið 2000-2001 og þurfti ég að segja upp fólki, það var erfitt og hef ég ekki getað beðið þá sem fyrir þeim brottrekstri urðu almennilega afsökunar, ég bað bara um skilning á því að ástæða þess var að bankakerfið lokaði á fyrirgreiðslur á þeim tíma og að lægð væri í þjóðfélaginu, ég þurfi að fórna fáum til að bjarga hópnum.  Ég seldi síðan reksturinn og fór með og vann sem undirmanneskja eftir það, sem var andskotanum erfiðara.

Í fyrra var mér sagt upp störfum fyrirvaralaust, ég hrundi.  Sorg liðinna ára braust fram og missti getuna til að njóta lífsins.  Ég var hrædd og óörugg um lífsafkomu mína enda komin á sextugsaldurinn.  Síðan hrundi bankakerfið og tók með sér stóran hlut af sparnaði okkar hjóna.  Að lokum kom eitt högg í viðbót, eiginmaðurinn fékk sína uppsögn eftir að hafa starfað hjá sama fyrirtækinu frá stofnun þess 1995.

Ég vorkenni mér ekki.  Veit af fenginni reynslu að sólin nær alltaf að brjótast í gegnum skýin.  Ég lifi í þokkalegum líkama og get gert mér margt til dundurs.  Við hjónin vorum líka svo lánsöm að vera ekki mikið skuldug, þannig að við náum að klóra okkur áfram á tvöföldum bótum.  Að vísu verða utanlandsferðir að bíða betri tíma, ekki förum við út að borða.  Það er stagað í Ecco sokka hér á bæ og innkaup plönuð fyrir komandi viku.  Ég tek strætó í staðin fyrir að keyra bílinn, en hann nota ég bara þegar ömmudagurinn er. 

Ég skil sorg og vanmátt þeirra sem hafa misst nánast allt sitt, unga fólkið með litlu börnin sín sem eru föst í skuldafeni og fangelsuð í stórum einbýlishúsum sem seljast ekki.  Fyrir þau eru þetta skelfilegri tímar en mig gamla brýnið sem er búin að herða og píska sjálfa mig til. 

Hvað fyrirgefninguna varðar þá er ég ekki sammála Vilhjálmi, það er hægt að fyrigefa án þess að sá seki biðjist fyrirgefningar.  Fyrirgefningin er athöfn sem felst í því að sleppa tökum á bitrum hugsunum og vilja ekki hefna sín.  Dóttir mín fjölfötluð og langveik var oft beitt rangindum og ég líka, hún dó af völdum mistaka í meðferð.  Fordómar í minn garð vegna erfiðleika sem ég gekk í gegnum sem unglingur voru þess valdandi að ekki var hlustað á mig ítarlega og það gerði mig reiða, bálreiða og svekkta.   En til  þess að ég fengi frið í sálina þá þurfti ég að fyrirgefa þeim sem gerðu á hlut minn á þeim tíma, það var léttir því ég og þetta fólk eigum í góðum samskiptum núna.

Árið 1979 sneri ég blaðinu við í lífi mínu og tók ábyrgð á minni eigin lífsgöngu, en ég er sorgmædd yfir töpuðum æskuárum og æskubrestum sem enn lita mitt lífsblað.  Í dag bið ég þessa ungu stúlku fyrirgefningar á eigin fordómum í hennar garð.  Ég var minn versti óvinur.

Ég hef lent í rangindum, en líka beitt rangindum og vona að mér sé fyrirgefið það sem ég hef gert öðrum.


mbl.is Aldrei of blönk til að hugsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fasteignamarkaðurinn

Við hjónin erum einmitt að hugsa um að minnka við okkur úr 4ja herbergja, gamalt - nýtt í bland, í 104 hverfinu.  Húsnæðið er alltof stórt fyrir barnlaus hjón og skömm að því að búa svona rúmt meðan aðrir kúldrast í þröngu húsnæði og ekki talandi um þá sem hafa byggt yfir sig einbýlishúsin á góðærinu og eiga nú ekki fyrir afborgunum.

Ríkidæmi og fátækt eru oft á tíðum huglægt kvikindi á Vesturlöndum.  Flest okkar lifa langt ofar velmegunarmarka ef maður fer til vanþróuðu landanna.  Ætli JÁH og IP séu nokkuð hamingjusamari en ég, þessi einfalda kona sem hefur nóg að bíta og brenna þessa stundina.  Áhyggjur mínar af töpuðum sparnaði heyra fortíðinni til, þeir aurar koma ekki til baka.  Ég og minn ektamaki getum lifað á litlu ef við herðum sultarólina, notum bílinn bara einu sinni í viku, verslum "ég roðna" í Bónus en erum að hugsa um að hreyfa okkur yfir í Krónuna þar sem hún er að verða ódýrara en góða, fína, bleika svínið. 

Talandi um það svín, einu sinni fyrir langa löngu var góðhjartaður maður sem fann til með fátækri íslenskri alþýðu og blöskraði einræði einstakra heildsala.  Hann fann sér húsnæði í 104 og fór að selja ódýran mat og nytjavörur í einföldum umbúðum.  Hann átti sér draum um að allir stæðu jafnir að borði.  Mig grunar að þessi maður hafi átt hreina hugsjón og einlægan vilja.  Góðhjartaði maðurinn  átti atorkusaman son sem langaði til að verða stór og mikill maður, eignast flotta hluti og fagra konu, hann gleymdi sér og áður en hann vissi var hann ásamt öðrum í hans flokki búinn að koma þjóðinni á kaldan klakann og því miður hafði hans góðhjartaði faðir misst sjónar af einfeldninni og orðið græðginni á vald. Þeir misstu stjórnina á hömlulausri eignarmyndun, runnu á rassinn og eru nú að fara í meðferð vegna erfiðra fráhvarfa.

En við vitum, það sem fer upp kemur aftur niður.  Sjaldnast er jafnvægi á hlutunum og núna erum við í niðursveiflunni.

Mig langar ekkert í höfuðið á JÁG á silfurfati, mín vegna má það liggja á hans breiðu herðum og það er von mín að í hans hjarta vakni samhyggð til allra þeirra sem hafa þjáðst vegna verka hans.

Amen.


mbl.is Selja íbúð á Manhattan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband