Sorgarferli

Vilhjálmur talar um sorgarferli sem kemur í kjölfarið á atvinnumissi og tekur mið af fráfalli föður síns.  Hér get ég verið sammála Vilhjálmi um sorgarferli og doða.  Það eru 14 ár síðan ég missti barnunga dóttur mína, þrem mánuðum síðar móður mína, kisuna mína og 7 mánuðum eftir það nýfædda dóttur.  Ég dofnaði upp og fann ekki fyrir sorginni, hún kom löngu seinna og fylgdi mér eins og þrálátur skuggi, litaði líf mitt dag frá degi með ólíklegum skapbrigðum.  Á þessum tíma rak ég fyrirtæki og gat ekki annað en haldið áfram að reka það, því ég bar líka ábyrgð á lífsafkomu fólks sem ég hafði í vinnu.  Ég var stödd í súrrealískum heimi þar sem ég stóð oft fyrir utan sjálfa mig og horfði á lífið flæða framhjá. Sorgin barði að dyrum reglulega en ég kæfði hana með enn meiri vinnu.  Það komu erfiðleikar í rekstri árið 2000-2001 og þurfti ég að segja upp fólki, það var erfitt og hef ég ekki getað beðið þá sem fyrir þeim brottrekstri urðu almennilega afsökunar, ég bað bara um skilning á því að ástæða þess var að bankakerfið lokaði á fyrirgreiðslur á þeim tíma og að lægð væri í þjóðfélaginu, ég þurfi að fórna fáum til að bjarga hópnum.  Ég seldi síðan reksturinn og fór með og vann sem undirmanneskja eftir það, sem var andskotanum erfiðara.

Í fyrra var mér sagt upp störfum fyrirvaralaust, ég hrundi.  Sorg liðinna ára braust fram og missti getuna til að njóta lífsins.  Ég var hrædd og óörugg um lífsafkomu mína enda komin á sextugsaldurinn.  Síðan hrundi bankakerfið og tók með sér stóran hlut af sparnaði okkar hjóna.  Að lokum kom eitt högg í viðbót, eiginmaðurinn fékk sína uppsögn eftir að hafa starfað hjá sama fyrirtækinu frá stofnun þess 1995.

Ég vorkenni mér ekki.  Veit af fenginni reynslu að sólin nær alltaf að brjótast í gegnum skýin.  Ég lifi í þokkalegum líkama og get gert mér margt til dundurs.  Við hjónin vorum líka svo lánsöm að vera ekki mikið skuldug, þannig að við náum að klóra okkur áfram á tvöföldum bótum.  Að vísu verða utanlandsferðir að bíða betri tíma, ekki förum við út að borða.  Það er stagað í Ecco sokka hér á bæ og innkaup plönuð fyrir komandi viku.  Ég tek strætó í staðin fyrir að keyra bílinn, en hann nota ég bara þegar ömmudagurinn er. 

Ég skil sorg og vanmátt þeirra sem hafa misst nánast allt sitt, unga fólkið með litlu börnin sín sem eru föst í skuldafeni og fangelsuð í stórum einbýlishúsum sem seljast ekki.  Fyrir þau eru þetta skelfilegri tímar en mig gamla brýnið sem er búin að herða og píska sjálfa mig til. 

Hvað fyrirgefninguna varðar þá er ég ekki sammála Vilhjálmi, það er hægt að fyrigefa án þess að sá seki biðjist fyrirgefningar.  Fyrirgefningin er athöfn sem felst í því að sleppa tökum á bitrum hugsunum og vilja ekki hefna sín.  Dóttir mín fjölfötluð og langveik var oft beitt rangindum og ég líka, hún dó af völdum mistaka í meðferð.  Fordómar í minn garð vegna erfiðleika sem ég gekk í gegnum sem unglingur voru þess valdandi að ekki var hlustað á mig ítarlega og það gerði mig reiða, bálreiða og svekkta.   En til  þess að ég fengi frið í sálina þá þurfti ég að fyrirgefa þeim sem gerðu á hlut minn á þeim tíma, það var léttir því ég og þetta fólk eigum í góðum samskiptum núna.

Árið 1979 sneri ég blaðinu við í lífi mínu og tók ábyrgð á minni eigin lífsgöngu, en ég er sorgmædd yfir töpuðum æskuárum og æskubrestum sem enn lita mitt lífsblað.  Í dag bið ég þessa ungu stúlku fyrirgefningar á eigin fordómum í hennar garð.  Ég var minn versti óvinur.

Ég hef lent í rangindum, en líka beitt rangindum og vona að mér sé fyrirgefið það sem ég hef gert öðrum.


mbl.is Aldrei of blönk til að hugsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Þakka þér fyrir deila reynslu þinni með okkur.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 15.2.2009 kl. 12:29

2 identicon

Ég má til að klappa þér aðeins fyrir þessi skrif þín..

Æðruleysið allsráðandi, og stór saga..

Það sem er svo fallegt í henni er, að við öll getum einhversstaðar í sögunni þinni sett samansem-merki við okkar eigið líf.

Vel skrifað.

þakkir

Valdís

Valdís Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 12:45

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Vonandi er framtíðin björt. Sýnist þú eiga það meira en skilið.

Villi Asgeirsson, 15.2.2009 kl. 12:51

4 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Ólöf mín, við þekkjum þetta ferli allt of vel. Éins og við vorum að ræða um daginn. Við vitum líka að maður verður að lifa af á meðan tíminn hér, sem okkur var ætlaður, líður.

Svo sammála þér með fyrirgefninguna. Hún er fyrir þann sem fyrirgefur ekki öfugt.

Rut Sumarliðadóttir, 15.2.2009 kl. 13:10

5 Smámynd: Ólöf de Bont

Þakka þér fyrir nafna, öfunda þig smá af að vera að klára nám í stærsta áhugamáli mínu, listum og guðfræði.  Villi, framtíðin er alltaf björt, bara spurning um skugganan sem skyggja stundum á gangstéttina.  Valdís, Þakka þér fyrir þín góðu orð, megir lífið verða þér farsælt.  Rut kæra vinkona, við höfum siglt saman og bæði hlegið og grátið.

Ólöf de Bont, 15.2.2009 kl. 13:32

6 Smámynd: Dagrún Steinunn Ólafsdóttir

Ég er svo sammála þessu með fyrirgefninguna. Hún er til að okkur líði sjálfum betur.

Þungt að burðast með reiði og gremju.

Frá því ég kynntist þér hef ég alltaf dáðst að því hvað þú ert sterk. 

Dagrún Steinunn Ólafsdóttir, 15.2.2009 kl. 18:10

7 Smámynd: Ólöf de Bont

Elsku Dagrún,

Takk.  Ég upplifi mig ekki sterka, heldur sem brotin disk sem er límdur saman með UHU, ég veit aldrei hvernær stykkin falla úr. 

 Sömuleiðis, mér þykir alltaf vænt um þig og þann tíma sem við áttum saman.

Ólöf de Bont, 15.2.2009 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband