Færsluflokkur: Dægurmál
5.12.2008 | 17:57
Líf að veði
Ég er fegin að hafa ekki verið á staðnum þennan umrædda laugardag. Þessi fréttaflutningur minnir mig á réttir í gamla daga þegar féið hljóp í allar áttir og maður átti fótum sínum fjör að launa.
Mér er sagt að fólk sé að nota síðasta sjens áður en allt fer til andskotans eftir áramót, en þá fyrst fer kreppan að segja til sín og afleiðingar af uppsögnum á vinnumarkaðinum að koma í ljós.
Þetta eru ótrúlegir tímar sem við lifum á og ótrúleg mynd að horfa á stjórnlausan lýðinn þeysast um BT verslunina.
Lífhrædd á íslenskri útsölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.12.2008 | 12:48
Stress
Sú gamla ætlar að þreyta próf á mánudag og þriðjudag. Tvö á mánudag og eitt á þriðjudag. Hver haldið þið að hafi elt þá gömlu uppi? Jú! Prófkvíðinn, svo andstyggilegur að ég er með útblásinn kvið og einhverjar rokur úr afturendanum. Þessu linnir víst aldrei, virðist ekki skipta máli að maður er búin að viða að sér heilmiklar reynslur úr lífinu. Komist ágætlega áfram og í góðum málum þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu.
En ég er hugrökk, annað er ekki hægt að segja því sá sem er hugrakkur gengur á vit óttans og tekst á við hann. Hinir sem aldrei finna fyrir hræðslu eða kvíða búa ekki yfir hugrekki því þeir þurfa ekki að takast á við þessa púka ...... en ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér.
Sumir spyrja afhverju ég sé að nenna þessu (menntaskólanáminu) kominn á minn aldur og hver tilgangurinn sé að fara í háskólanám og útskrifast nær sextugu. Jah! - ætli það sé ekki afþví ég held að ég sé ætíð ung og að líf mitt stöðvist aldrei, að það séu óteljandi tækifæri fyrir mig þarna úti.
Ég er atvinnulaus og veit ekki hvenær ég fæ vinnu. Ég nenni ekki að sitja heima og gera ekki neitt og því ætla ég að fara þessa námsleið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2008 | 11:08
Sá leyndardómsfulli
Ég er öruggleg ásamt mörgum öðrum ekki í stakk búin til þess að finna lausn á þeim vanda sem nú steðjar að þjóðinni af völdum efnahagshamfara. Ég skil voða lítið hvað það var sem kom hruninu af stað. Hvort það voru hinir nýríku sem keyptu upp fjölmiðlana eða hinn leyndardómsfulli sem sem situr í stóra svarta kubbaldanum sem geymir peninga þjóðarinnar.
Það er eitthvað í mér sem segir að við séum sú þjóð að láta ekki kúga okkur. Við neitum að vera leidd til slátrunar án þess að sporna við og okkur er það fyrirmunað að lúta einræðisstjórn. Eða hef ég lifað í blekkingu?
Ég hef oft horft upp hvert ógurfrekja leiðir fólk og hvernig skapofsamanneskjurnar klífa hvern metorðastigann á fætur öðrum. Fyrir neðan stigann eru þeir sem hafa ekki skap til að sporna á móti frekjunni og láta það átyllislaust að hinn freki rífi allt og tætir á leið sinni upp. Skildi okkar góða og rómaða stjórn sitja í kassanum og leyfa frekasta krakkanum að ata sig út á kattarskitnum sandi?
Ég held að við séum nýríkt (núna nýfátæk að verða) vanþróað land og værum við ekki stödd í miðju Atlandshafi á milli Evrópu og BNA og hefðum yfir vopnum að ráða, skipti ekki máli að það væri sverð, spjót og loftbyssa að við værum stödd í miðju uppreisnar þar sem ekki bara eggjum og tómötum væri kasta heldur væri gripið til morðtóla. Það er svo hárfín línan sem skilur á milli okkar og fátæku landanna sem rísa upp og grípa til vopna.
Hvert stefnir ef hvert heimilið á fætur öðru fer á hausinn? Hvað er það sem gerir það að verkum að ungt vel menntað fólk vill setjast hér að og eyða ævinni fast í skuldarfeni og hlekkjað við verðtryggingargrýluna? Hvað gera ríkisstjórnin, bankarnir og lífeyrissjóðirnir ef fólk tekur upp á því í hundraðavís að skila lyklunum til bankans og hætta að borga af lánunum? Ég er viss um að þá komi babb í bátinn og að stjórnvöld átti sig á því að fyrr hefði átt að grípa í taumana.
Ég er hrygg yfir stöðu mála í dag og það sem hryggir mig mest er leyndin sem menn bera fyrir sig.
Davíð: Þá mun ég snúa aftur" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.12.2008 | 13:16
Greiðslustöðvun
Jæja, þá er greiðan komin alla leið vestur til USA og nú skal stöðva allar greiðslur. Ég er ekkert hissa og öll kurl eru ekki komin til grafar.
Það sem ég hef helst áhyggjur af núna er það að ég er farin að nota æ kerlingalegri brjóstahöld. Í kreppunni hefur maður ekki efni á blúndum.
Kaupþing óskar eftir greiðslustöðvun í Bandaríkjunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2008 | 15:20
Of feit eða ekki of feit!
Ég las skemmtilegt blogg hjá henni Jónu jonaa.blog.is, en hún er snilldarpenni og kann að gera góðlátlegt grín að sjálfri sér og sínum okkur hinum sem lesum bloggið til skemmtunar. Ég sjálf staldra oft við hennar færslur og fara um hausinn á mér margar hugsanir.
Í dag var inntakið fita, ekki steikingarfita, heldur fitan sem sest utan á okkur. Það er fita út um allt og á eftir að verða einn meiri fita þegar hátíðarhöldum líkur. Líkamsræktarstöðvarnar verða sennilega einu fyrirtækin sem ná einhverjum hagnaði inn í janúarmánuði, nema þjóðin taki sig í gegn og grenni sig í kreppunni.
Ég er svo heppin að hafa utan á mér ein 20 aukakíló og reiknast mér til að hún dugi mér út krepputímabilið. Aukafituna nota ég til að hlýja eiginmanninum á köldum vetrarnóttum. Rassinn á mér en það þokkalega bólstraður að ég finn ekki fyrir stólgarminum sem ég sit löngum á við endurskriftir á glósum. Svo er aukafitan líka hin ágætasta inflúensubólusetning, því ég fæ varla eina einustu pest. ´
Það sem gerist í kreppunni mér til skeflingar er að Rubens formið á líkama mínum er að breytast. Mjúku línurnar eru að gefa eftir og húðin sígur aðeins niður á við. Ég fæ líka ákveðnari og kvenskörungslegri svip á andlitið þar sem fitan fer fyrst þaðan. Ég verð beinaber og viðbeinið fer að sýna sig og skagar stolt yfir rýrnandi barmi mínum. Ef svona heldur áfram þá verður lítið fyrir ormana að naga þegar sál mín yfirgefur beinaberan líkamann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.12.2008 | 11:23
Frú Vigdís
„ Særandi að vera sakaður um glannalegar athafnir “ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.12.2008 | 19:41
Spara með Sean Connery
Spara pening með kynlífi! Fæst sama spenna úr því eins og að rölta um og skoða búðarglugga? Fylla poka með útsöluvarningi og fylla geymslurnar hjá sér? Síðan að takast á við hið venjubunda febrúarrifrildi þegar Vísa reikningurinn rennur inn um lúguna... getur sexið komið manni í það algleymi? úúú....
Ég er ekki dauð úr öllum æðum og ætli maður fari ekki bara að æfa sig aftur
Spara pening með auknu kynlífi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.12.2008 | 15:29
Gargöld
Vargastefna við Stjórnarráð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.11.2008 | 12:18
Listin að læra
Ég er að klára stúdentinn af listabraut í vor. Ákvað að sem gamall "drop out" að taka mig saman í andlitinu, sérstaklega þar sem ég er atvinnulaus að gera nú eitthvað viturlegt s.s. að læra utanbókar ýmsar kenningar og formúlur. Ég lýg því ekki, en það er ekki það auðveldasta í heiminum að sitja í bekk með unglingum sem gera ekkert annað en að tala saman í kór og sofa ofan í bringuna á sér (skyldi þetta vera ég fyrir allmörgum áratugum síðan?) Mig vantar ekki vitið, vantar ekki að ég hafi skoðun á því sem er að gerast í kringum mig og lífsreynslu hef ég næga. En allt þetta dugar mér ekki til þess að ganga í þá háttvirtu stofnum sem HÍ er... stúdentinn þar ég að hafa og þar við situr.
Nú sit ég og endurskrifa glósur og reyni við þáttun, liðun og taka út fyrir sviga. Hjartað berst í brjósti mér af ótta við að fá ekki 9 í öllum fögum. Mig flökrar við tilhugsunina um próf og útkomuna úr þeim. Slæmt að vera orðin þetta fullorðinn með þessa áráttu að vilja vera með þeim bestu. Það er ekki í stöðunni núna að vera "drop out" heldur bara að ná prófunum og hafa gaman af lestri og námi og muna að það er dagleg æfing sem færir manni þekkinguna og utanbókarlærdóminn.
Ég sé fram á að fara að vinna á nýjum og áhugaverðum vettvangi svona tæplega sextug. Fram að þeim tíma læri ég, mála og móta í leir og verð í framhaldinu áhugaverð eldri dama í þéttholda líkama með rautt litað hár og eldrauðan varalit. Lífskúnstner sem hvergi er bangin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.11.2008 | 13:20
Tónleikar
Mér er boðið á tónleika Gospelsystra og Vox femine í dag og munu margar minningar skjóta upp kollinum er ég sjálf stóð á palli í Langholtskirkju með Gospelsystrum og söng. Það eru mörg árin síðan ég hef hreyft raddböndin nema rétt til þess að raula og raulað hef ég lítið síðustu ár, sem er synd og skömm því sálartetrið hefur svo gott af orku söngsins. En kannski verða breytingar á því nú á krepputímum því þá blómstrar listin, fjölskyldubönd styrkjast og vinir eru meira saman.
Ég er ekkert svo ósátt við þá stöðu sem ég er í dag þó svo það hafi farið um mig þegar ég missti vinnuna, bankarnir hertóku sparnaðinn minn (sem ég er að reyna að leysa út), maðurinn minn fékk sömuleiðis reisupassann úr sinni vinnu hvar hann hafði setið sem fastast í tæp 14 ár. Minn tími í dag er tími lærdóms og sköpunar. Ég er að komast úr skel eiginhagsmunastefnu og ræ nú öllum árum að því að tengja mig aftur inní mannlífið og finna aftur ilminn af heimabökuðu bakkelsi og íslenskri matargerð.
Ég á ekkert annað val en að kjósa að vera jákvæð, leyfa hræðslunni og framfærslukvíðanum að yfirtaka ekki andlega heilsu mína og horfa fram á veginn minnug þess að oft hafa tímarnir verið verri í lífi mínu. Mín von er sú að við þjöppumst saman sem fjölskylda og þjóð og að náungakærleikurinn fái að blómstra.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)