Tónleikar

Mér er boðið á tónleika Gospelsystra og Vox femine í dag og munu margar minningar skjóta upp kollinum er ég sjálf stóð á palli í Langholtskirkju með Gospelsystrum og söng.  Það eru mörg árin síðan ég hef hreyft raddböndin nema rétt til þess að raula og raulað hef ég lítið síðustu ár, sem er synd og skömm því sálartetrið hefur svo gott af orku söngsins.  En kannski verða breytingar á því nú á krepputímum því þá blómstrar listin, fjölskyldubönd styrkjast og vinir eru meira saman. 

Ég er ekkert svo ósátt við þá stöðu sem ég er í dag þó svo það hafi farið um mig þegar ég missti vinnuna, bankarnir hertóku sparnaðinn minn (sem ég er að reyna að leysa út), maðurinn minn fékk sömuleiðis reisupassann úr sinni vinnu hvar hann hafði setið sem fastast í tæp 14 ár.  Minn tími í dag er tími lærdóms og sköpunar.  Ég er að komast úr skel eiginhagsmunastefnu og ræ nú öllum árum að því að tengja mig aftur inní mannlífið og finna aftur ilminn af heimabökuðu bakkelsi og íslenskri matargerð.

Ég á ekkert annað val en að kjósa að vera jákvæð, leyfa hræðslunni og framfærslukvíðanum að yfirtaka ekki andlega heilsu mína og horfa fram á veginn minnug þess að oft hafa tímarnir verið verri í lífi mínu.  Mín von er sú að við þjöppumst saman sem fjölskylda og þjóð og að náungakærleikurinn fái að blómstra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband