Færsluflokkur: Dægurmál

Friður

Þrátt fyrir að hún væri orðin fimmtíu og þriggja ára leit hún mjög vel út. Andlitið var unglegt og kringluleitt með stórum grænum augum sem horfðu draumkenndu augnaráði yfir hafið og út að sjóndeildarhringnum. Þykkt hárið krullaðist yfir háu enninu en hún hafði nýverið klippt það mjög stutt. Það var friður í hjarta hennar og hún var komin þangað í lífi sínu sem hún vildi eyða ævikvöldinu. Eirðarleysið sem hafði alltaf fylgt henni og þessi sársaukafulla óþreyja voru farin að víkja fyrir djúpri og ástríðufullri lífsgleði. Það var dásamlegt að vera til á þeim stað þar sem ekkert skyggði á. Sátt horfði hún niður á ítuvaxinn líkama sinn og brosti í huganum til konunnar í sem var orðin hennar besti vinur. Héðan í frá yrði allt eins og það átti alltaf að vera, lífsganga hennar var fullkomnuð og ekkert myndi koma henni á óvart lengur, hvorki sjúkdómar, fátækt, missir né öldrun. Hún átti nóg af öllu og lífið hafði kennt henni að þakklætið er besta tilfinning sem innra með manni getur bærst. Lífspúsl hennar var nánast fullklárað, einungis þriðjungur eftir og hvert púsl myndi rata á sinn stað á sínum tíma. Hún sigldi lífsfleyi sínu lipurlega á milli kóralrifa lífsins með aðstoð æðri máttar.

Það sýður oft upp úr hjá mér

Sem fyrrverandi rauðka, lágvaxin og þéttholda með ótrúlega samasafnaða orku innra með mér þá lendi ég oft í því að upp úr sjóði hjá mér.  Ég þessi litla miðaldra kona lyfti þá hnefanum á loft, bít í tunguna á mér, stappa niður fæti, losa tunguna frá tönnunum og les frá mér galdraþulu á óskiljanlegu máli.  Mér verður yfirleitt ekkert ágengt með þessum látum í mér nema kannski að mér er sagt að taka pokann minn og hysja mig úr húsi (sbr. kjaft minn við fyrrverandi vinnuveitanda, tek samt fram að hann fór miklu fín- og kurteisislegra í það að segja mér upp en ég lýsi hér að framan).  Sama gildir þegar ég rýk til og krefst þess að rétti mínum sé sinnt, veifi ég hnefa þá uppsker ég herör á móti og allt fer til andskotans og enginn nær sátt.

Ég væri alveg til í tusk við svona eina til tvær löggur svona til að rifja upp gamlar minningar frá mótmælatímum mínum þegar ég var raunveruleg rauðka, bæði til hárs og trúar.  En þær (löggurnar) væru fljótar að snúa mig niður meðan gargið GAS GAS hljómaði í eyrum mínum.  Ég hef ekki heilsu nú til dags til að vera svona róttæk, en ég get galdrað og hrært í potti fullum af galdraseyðum og gef ég Evu nú minn galdrastyrk svo réttlætið nái fram að ganga, að jafnvægi náist í heiminum og að engar stórar styrjaldir byrji vegna banka- og fjármálahruns um allan heim, en ég er hrædd um að svo gæti orðið.  Orka reiðinnar er sterkasta vopn í heimi og fer um heiminn sem Ragnarrök.


mbl.is Óttast að uppúr sjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök á mistök ofan

Það er svo auðvelt að biðjast afsökunar og halda áfram sama leiknum.  Mér er skítsama þó svo ég tapi einhverju á áhættufjárfestingum í peningamarkaðssjóðum, ég tók þá áhættu vits vísandi um að tapið gæti orðið meiri en gróðinn.  En mér er ekki skítsama um eldra fólk og fólk með einlæga trú á því að það sé verið að leiðbeina því í rétta átt, það á meira skilið en afsökunarbeiðni, það á að fá peningana sína til baka frá ríkisstjórninni sem ábyrgðist þessa banka en settu þá síðan á hausinn svo hún kæmist undan ábyrgðinni.

Hvernig er það að vera manneskja föst í vef lygarinnar?  Ekki góð tilfinning að mínu mati, því lygar fæða af sér ótta.  Hver hefur ekki einhverntímann logið og fundið fyrir þessari óþægilegu tilfinningu í iðrunum? Fáir held ég þó svo flestir beri fyrir sig 100% heiðarleika alltaf um alla eilífð.

Hvítflibbaglæponarnir eru hættulegri en þeir snöggklipptu og tattúveruðu, þá getur maður forðast en ekki manninn í hvítu skyrtunni með svarta bindið.

Leiðréttingu en ekki afsökun.


mbl.is NBI og Landsvaki viðurkenna mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hnerri

Þá veit maður það.  Miðaldra menn hnerra þegar þeir hugsa um kynlíf.  Nú er maður á varðbergi því það er ekki lengur hægt að treysta hnerrandi mönnum.  En hvað um konur, þær hnerra, en hvað skyldu þær hugsa í þeim látum?
mbl.is Hnerrandi kynlíf?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækkun

Já, einmitt.   Hún verður víst töluverð tekjuskerðingin sem forseti okkar tekur á sig.  Þetta er grín út í eitt og gerir málið bara verra fyrir þá sem þurfa að sjá á eftir nánast öllum tekjum sínum og eignum vegna trassa- og klíkuskapar ríkisstjórnar okkar
mbl.is Ólafur Ragnar fer fram á launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún

             Hún sat í fjörunni með tærnar djúpt grafnar í hlýjan sandinn og svipur hennar var eftirvæntingarfullur. Eldurinn kraumaði í æðum hennar og hún beið þess að svalar öldurnar umlykju líkama hennar og kældu heitar ástríðurnar. Hún var alveg ómeðvituð um þá opinberun sem átti eftir að eiga sér stað í lífi hennar fljótlega. Uppskera lífs hennar var rétt handan við sendna víkina þar sem hún hafði komið sér fyrir. Ástríðurnar voru ekki eingöngu líkamlegar. Þær voru miklu frekar fullnægingin sem fólst í því að nálgast Guð sinn og finna þessa innri ró sem kom yfir hana þar sem hún var ein í sjónum. Sjórinn hafði ætíð verið myndgerfing tilfinninga hennar og hún samsamaði sig öldugangi hans og stillu. Á þessu augnabliki var sjórinn lygn og hún fann hvernig hún endurfæddist inn í þann kjarna sem kom með henni sem ungbarn þegar hún skaust úr móðurkviði og þegar Guð sleppti af henni hendinni og gaf henni frjálsan vilja til að fara með líf sitt eins og hún vildi. Hún bar með sér kosti og galla forfeðra sinna og fyrri lífa, innsæi og þessa djúpu trú sem að lokum bjargaði henni frá glötun. Opinberunin fólst í því að hún uppgötvaði að hún bar sjálf ábyrgð á göngu sinni í gegnum lífið. Lífið hafði ekki alltaf verið henni auðvelt og hún hafði átt í erfðleikum með að skilja svo margt. Af hverju? var spurning sem æði oft brann á vörum hennar. Hvers vegna ég? var uppáhaldshugsun hennar í sjálfsvorkunn unglingsáranna og jafnvel þegar hún var barn. Lífið var eitt stórt Af hverju og svarið var ætíð Af því bara. Hún brosti framan í sólina sem vermdi hana alla. Ég er núna og mun ætíð vera núna í tímalausum heimi þar sem lífin renna saman í eina samfellda mynd í flóknum hugbúnaði Guðlegrar sköpunar. Ég var, er og verð – af moldu ertu komin, að moldu muntu aftur verða, af moldu muntu aftur upp stíga. Hún yrði alltaf, bara í annarri mynd sem væri hentugri í öðru tímabelti. Lífið var hætt að vera ógnun og hún hafði vaknað upp af Mjallhvítarsvefni sínum þegar sjórinn, hinn óendanlegi prins undirmeðvitundar hennar, kyssti hana léttilega á varirnar og opnaði henni sýn inn í nýjan heim fullan af kærleik og tækifærum til betra lífs.

Innri endurskoðun

Eða innhverf íhugun.  Ég býst við að það sé erfitt fyrir fólk með einhverja siðgæðisvitund að sitja á endurskoðunarstól og vera sífell með hjartað í buxunum.  Ég vil taka fram að ég er ekki að deila á persónu Brynjólfs Helgasonar þar sem ég þekki hann ekki af eigin raun.  Samt er sú vissa innra með mér að ýmislegt óhreint sé í pokahorninu og að ýmislegt sé búið að tæta í burtu af þekkingu/upplýsingum um það sem hefur verið að gerast í bankanum sl. ár. 

Ég á erfitt með að trúa að við hinir almennu borgarar komist nokkurn tímann að hinu sanna í málinu.  Mér skilst að sumir fyrrverandi stjórnmálamenn sem sitja sem fastast í gráa steinkumbaldinum búi yfir upplýsingum um ýmsa háttvirta menn og konur sem gætu orðið þeim að falli og þess vegna þegir það fólk.  En hvað veit ég, ég les fréttamiðla og finn á eigin skinni þær breytingar sem eru að gerast í okkar þjóðfélagi.


mbl.is Innri endurskoðandi óskast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemst ekki inn

Ég ætla mér næsta haust að sækja um í HÍ.  Ég missti atvinnunina í samdrætti í vor og ákvað að klára það sem ég ætti eftir af stúdentinum (það er búið að fella niður aldursundanþágu) og halda síðan áfram svo ég ætti auðveldara með að fá vinnu.  Ég er ekki tilbúin til þess að leggjast í kör og gera ekki neitt, þannig verð ég bara baggi á þjóðfélaginu sem núna er að skera niður hjá láglaunafólki, öryrkjum og öldruðum.

Það þarf að skera niður svo að ríkið geti haldið áfram störfum þ.e. að ráðamenn geti haldið áfram að borga sér fín laun.  Það þarf líka að fría hina nýríku sem hafa komið þjóðinni á hausinn (mér er sama þótt það sé heimskreppa) og komið peningum sínum fyrir í skattaparadísum.  Vafalaust er þetta eina leiðin í dag skv. ríkisstjórninni, þau sem stjórna henni eiga svo bágt greyin. 

Á öll þjóðin að fara á kúpuna.  Þarf hér að rísa braggakerfi að nýju - við getum svo sem notað hálfkláruðu húsin hér og hengt lök fyrir hurðar og horft upp í steinullina, það þekki ég frá fyrri tímum og eru ekki nema 14 ár síðan sá kafli var í lífi mínu og ég þurfti að berjast fyrir lífsgæðum dóttur minnar sem var fjölfötluð, langveik og ekkert beið hennar nema dauðinn í hálfkláruðu húsi.... Kannski þessvegna get ég fundið til með Þorgerði Katrínu þegar ég les á forsíðu DV að hennar dóttir 4ja ára gömul hafi greinst með æxli í heila, því veikindi fara ekki í manngreinaálit.  Ingibjörg Sólrún á líka samhyggð mína vegna þeirra veikinda sem hún hefur gengið í gegnum.  En ekkert af þessu afsakar hvernig ríkisstjórnin hefur ráðskast með þjóð sína, að hún hafi í blindum hroka leyft nokkrum mönnum að komast upp með að gera þjóðina gjaldþrota.  Forseti okkar hefur hampað þessum mönnum og flogið með þeim í einkaþotum víða um heim.  Skammarlegt og á ekki að viðgangast í þróuðu landi þar sem fólk er menntað upp úr skónum.

Ég tala nokkur tungumál og þrátt fyrir að vera komin yfir fimmtugt þá þori ég alveg að söðla um, selja mitt (ef hægt er) og byrja nýtt líf í öðru landi.  Ég gæti jafnvel komist inn í skóla á erlendri grundu, veit um nokkra á mínum aldri sem hafa gert það.


mbl.is Ekki hægt að taka inn nýnema
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólahjálpin

Ég er að velta því fyrir mér hverjum ég geti hjálpað um þessi jól.  Eins og staðan er hjá mér í dag þá á ég nóg fyrir sjálfa mig og þá sem koma til mín í mat.  Er það heppin að geta haldið 4 veislur í mánuðinum.  En það er farið að taka í pyngjuna og ekki svo auðvelt að draga upp kortið núna þar sem tæpir 8 mánuðir eru síðan ég missti vinnuna.  Ég hefði líka getað verið búin að missa vinnuna þó svo það hefði ekki komið kreppa, ég var svo kjaftfor launþegi og lét í mér heyra ef mér misbauð.

Ég man fátæktina þegar ég var barn, þá var ekki til svona hjálparstarfssemi, enda lá við að önnur hver fjölskylda væri fátæk og stóðu þá margir að jöfnu og var munurinn ekki svo mikill á milli þeirra sem áttu pening eða ekki.  Meginþorri þjóðarinnar var fátækur en átti þó nóg.  Fáar gjafir voru undir jólatrénu en þær sem þar voru geymdu gull og gersemar og alltaf var ilmurinn af hangiframparti dásamlegur, kartöflur í jafningi og sveskjugrautur með rjóma ef hann var til.  Ég á hlýjar minningar um jólin, hvítan snjóinn sem lá yfir þorpinu, stjörnubjartur himinn og tvær skottur klæddar í nýsaumaða njáttkjóla að hlaupa holtið þvert og endilangt í svörtum stígvélum.  Jól barnæsku minnar voru oftast litaðar gleði og tilhlökkun yfir fáum en dýrmætum pökkum.  Minningar um spilakvöld á jóladagskveldi og endalausar legur undir sæng með nýjustu bókina í höndunum.

Ég velti því fyrir mér hvort við séum svona miklu fátækari núna en á sjötta áratugnum, eða hvort við séum bara orðin svo góðu vön?  Auðvitað veit ég að þarna eru úti einstæðir foreldrar sem geta ekki veitt börnum sínum þær jólagjafir sem "hin" börnin fá, að það séu öryrkjar og atvinnulausir sem þurfa nú að skera við nögl og að bilið á milli þeirra sem fagna stórt eða þeirra sem rýrara fagna er orðið að stóru Ginnungargapi. 

Það tekur í hjartað að vita að það séu margir sem eiga við sárt að binda um þessi jól.  Mér finnst líka vont til þess að vita að stór hluti heimsins getur ekki brauðfætt sig eða fengið ferskst vatn vegna þess að 5% hluti þess fólks sem býr á jarðarkringlunni er það gráðugt að það tekur til sín allt.


mbl.is Sífellt fleiri leita aðstoðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlaus

Ég hef um ekkert að skrifa, en skrifa samt.  Þversagnarkennt, ekki satt? Pólitík og það sem er í gangi er ekki að ná inn fyrir skelina og mér finnst eins og maður sé stöðugt að lemja hausnum utan í vegginn, lítið sem ekkert breytist þó svo maður gargi hátt og mikið.  ´

Jólin framundan.  Búin að skrifa jólakortin, senda pakka út á land.  Pakkar barnabarnanna tilbúnir og dóttirin fær sitt líka í litlum flötum pakka.  Tengdakærastasonurinn (þau eru par) fær eitthvað smávegis, svona til að halda honum góðum og lokka hann til þess að líka vel við tengdó, því við "tengdamæður "þykjum jú hræðilegt fyrirbæri.

Ég er þreytt eftir 20 eininga önn, það kom í ljós þegar ég sótti einkunnir mínar og verkin úr myndlistinni.  Leirstyttan mín sprakk í brennslu og nú á ég bara myndir og brotin af þessu fyrsta leirverki mínu.  En voila, ég lími bara saman brotin.

Desembermánuður, ekki alveg minn uppáhaldsmánuður.  Ég verð alltaf smá döpur þegar jólin nálgast.  Mig langar svo mikið til að vera glöð.  Langar til að hafa alla ánægða í kringum mig og verð sorgmædd þegar maður skynjar einsemdina og vanmáttinn í kringum sig.   En það er ekki mitt að hafa áhyggjur af lífi annarra, það hjálpar engum.  Samt þegar jólin eru gengin í garð og sest er að jólaborði áður en gjafir eru opnaðar þá fer um mig ánægjuhrollur, spennan er að baki og nú er bara að njóta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband