Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lánuðu sjálfum sér

Til hvers er verið að birta þessar fréttir um allt þetta kruss og krass í bankageiranum?  Það er ekkert gert og mun vafalaust lítið vera gert.  Þessar fréttir vekja úlfúð og reiði.  Þetta er nú meiri andskotinn sem reið íslensku þjóðlífi í skrautbúningi í nokkur ár.  Andskotinn var í það góðum felubúningi að við "almúginn" héldum að héðan (lesist þaðan) myndum við sigla inn í eilífa hamingju með gnægð af aurum og mörgum utanlandsferðum.

Tortola geymir nú peninginn og peningamennirnir sitja öryggir í skjóli sérfræðinga sem tryggja þá bak og fyrir. 

Jæja, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn - Nei, eiginlega ekki.  Það þýðir ekkert að ferðast í gegnum lífið með hefndarhug.  Gjörðir manns hitta mann sjálfan fyrir fyrr eða síðar, ég þarf ekki að hafa fyrir því að refsa neinum og vona bara að allir hafi hreint hjarta og hreinan hug, að allt þetta fall eigi sér uppruna í Undralandi og að okkur sé hreinlega að dreyma.

Ég er komin með höfuðverk og flensu og ætla að leggjast til hvílu með tvær parkódín mér til sálubótar.


mbl.is Lánuðu sjálfum sér milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sex ástæður

Einu sinni flutti ég til útlanda.  Grasið var grænna þar og túlípanarnir uxu í þúsundatali í áburðarríkum eitruðum jarðvegi.  Þar sem ég bjó var hús við hús svo langt sem augað eygði.  Gluggar voru galopnir og engin gluggatjöld enda ekkert til að fela, eða svo langt sem ytri stofu náði.  Skíturinn sem var í bakherbergjum skipti engu máli svo lengi sem framhliðin var hrein.  Mannmergðin var mikil og týndi maður einstaklings einkennum sínum og féll inn í hópinn.  Vinaheimsóknir voru planaðar út frá dagbókinni.  Það tók ca. klukkuktíma að keyra 30km á háannatíma og var maður nær kafnaður úr koltvíoxíði. 

Félagskerfið var gott og voru þeir sem þáðu bætur vel settir á þeim tíma.  Vel menntaðir einstaklingar gátu ekki fengið starf við sitt hæfi og mátti lesa um heimspekinga sem fóru í blessaða öskuna eða lentu á "bijstand" þ.e. atvinnuleysisbótunum. 

Ég var þarna í sjö ár og alltaf leitaði hugurinn heim.  Hreina loftið, víðáttan, fuglasöngurinn, fámennið og það að vera einstaklingur og vera metin skv. því.  Ég þráði einfaldan íslenskan mat, soðnar kartöflur og fisk og ég fann jafnvel lykt af blóðmörnum langa leið.

Svo flutti ég heim fyrir 20 árum síðan og hef haft það gott og miklu betra en þarna úti.  Ég fékk að takast á við lífið og það var fjör og læti.  Að sjálfsögðu þurfti ég að hafa fyrir mínu, komast af og læra að bjarga mér miðað við breytilegar aðstæður, en það tókst.

Núna, mitt í kreppunni spyr ég mig hvort ég vilji flytja úr landi! Jú, nei, jú, nei... ég velti því fram og til baka hvort grasið sé enn grænt þarna á meginlandinu?  Hvort það verði búið að mér betur en hér heima. Hvort einstaklingurinn í mér fái að blómstra.  Æi nei, held ekki.... ég vil frekar vera hér í fámenninu en í yfirfullri borg á flatri erlendri grundu.  Ekki það að ég gæti ekki bjargað mér, tala þó nokkur mörg tungumál og er seig, en Ísland heillar og ég er tilbúin í slaginn við kreppuna og kannski uppbygginguna komi hún fljótt.

Vil ég fara úr öskunni í eldinn?  Held að Evrópa eða USA séu jafn mikið á barmi kreppu og við hér heima.

 


mbl.is 6 ástæður til að flytja til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattahækkanir

Ég á erfitt með að rifja upp sögu skattsins á Íslandi, hef gullfiskaminni hvað það varðar.  En eitt er víst, ef ég skoða til baka og reyni að rýna í sveiflunar sem hafa verið undanfarna áratugi, að skattarnir hækka.  Góðærið er að baki og nú tekur við að herða þarf sultarólina.  Ríkið þarf sitt til þess að standa undir einhversskonar velferðarkerfi og hver borgar brúsann? Almenningur, meðaltekjujóninn, hvað annað?

Ég finn til með þeim sem hafa í skjóli góðæris skuldsett sig uppfyrir haus, eignamyndun þeirra verður neikvæð og hætt er við að margar fjölskyldur rambi á barmi gjaldþrots og að þær sundrist fyrir vikið.  Það verður landsflótti hjá unga fólkinu. 

En svo blessast allt að lokum, það er seigla í þjóðinni eða ég vona það og góðir tímar munu koma aftur, spurning um bara hvenær.


mbl.is Hækki skatta og tvöfaldi vaxtabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jahérna!

Er það furða að fólk leggist í þunglyndi og að ýmis veikindi sæki á það þegar það hefur þurft að búa við kvíða og spennu um hvort það haldi atvinnu sinni?  Sá sem sagt er upp vinnu á kannski erfitt með að sinna sínum verkefnum, að horfast í augu við vinnufélaga sína eftir að hafa fengið uppsögn.  Það er mín skoðun að þegar fólki hefur verið sagt upp að þeim sé gert að hætta strax og fá uppsögn greidda, það myndi jafnvel koma í veg fyrir að fólk skráði sig veikt vegna áfallaröskunar.

Það að ætla að fólk gangi svo langt að meiða sig eða búa til slys til að auka rétt sinn er út í hött og ætti háttvirtur læknir að taka aðeins varlegra til orða.

Það er ömurlegt að vera hent út á götuna eftir margra ára starf, vera komin á ákveðin aldur og vera af hinu kyninu.  Uppsögnum er líka framfylgt þannig oft á tíðum að sá sem er sagt upp fær engan tíma til að átta sig á því hvað framundan sé, né heldur er skýring á því hvers vegna "ég" frekar en hinn.

Það er úr vöndu að ráða.    Ég fór í veikindafrí þegar mér var sagt upp störfum enda búin að biðja um það áður en mér var sagt upp..... svo það má alveg hnýta í mig.  Þeir voru samt ekki alvondir sem sögðu mér upp í samdrætti, það var ekkert annað í stöðunni hjá fyrirtækinu vegna samdráttar og því miður var ég ekki ein um að vera sagt upp.  


mbl.is Tíðari veikindi - Fleiri slys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafrænir læknar

Hef einmitt verið að spekulera afhverju það ískraði svona í mínum heimilislækni.  Vonandi ætlar hann sér ekki að verða rafrænn því ég get hlegið svo óskaplega hjá honum.  Þar sem ég skil ekki rafræna hnyttni þá dugar það mér ekki að hitta hann á netinu.  Svo vil ég helst ekki að mótttökudömurnar (Grammar Police verður að segja mér hvort ég fari með nægjanlega mörg t hér) missi vinnuna því þá fæ ég ekki að sjá brosið þeirra meira.

Nei takk, ekki rafrænt fyrir mig þó svo mér líki að liggja á blogginu og hafa skoðanir.  Hér með er einni komið til viðbótar.

 


mbl.is Læknar og lyfseðlar á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afþakka endurhæfingu

Þetta kemur mér ekkert á óvart, henti mig þegar ég bað um veikindarleyfi að fá uppsögn strax daginn eftir.  Ég segi ekki að kjafturinn á mér hafi ekki haft eitthvað um það að segja líka, en menn voru strax fyrriparts árs farnir að nota sér það að segja upp við beiðni um leyfi.  Svo var það líka holdið sem gerði mig veikari fyrir - ekki misskilja mig - á við að ég hafi/sé í þybbnara kantinum.


mbl.is Afþakka endurhæfingu eftir langa bið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsökun

Ásta er meiri kona fyrir að hafa beðist afsökunar á andvaraleysi og sofandahætti sínum á tímum bankahrunsins.  Ég vona bara að þetta sé ekki leið til að ná sér í kosningaratkvæði! -

Bara það eitt að sjá eigin mistök, biðjast afsökunar á þeim og vilja gera betur næst sýnir kosti manneskjunnar.  Það mættu fleiri taka hana sér til fyrirmyndar.

Skil alveg erfiðleikana sem fylgja því að biðjast afsökunar.  Flest okkar eru þrjóskir hrokagikkir og við þurfum knésettningu til að læra að yfirbót færir manni frið.

Koma svo, þið hinir sem hafið sofið, sýnt spillingu og ollið skaða - sjá að sér, biðjast afsökunar og reyna að gera betur næst.


mbl.is Baðst afsökunar á mistökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár litlar mýs

Ákváðu að hörfa áður en flóðbylgjan skellur á og settu í gang pappírstætarann, sem tætti allt það sem gæti bendlað þá við svikamyllu þá sem hefur verið starfrækt síðustu ár hér á landi.  Rottur eru stórar, miklar og skemma hraðar en litlu mýsnar sem læðast með veggjum.  Fuss og svei segi ég nú bara, hei strákar, ekki taka þetta persónulega til ykkar, þið hafið unnið í skjóli bankans og þurfið ekkert að roðna, eða? -

Mig grunar að sannleikurinn komi seint eða aldrei í ljós, landið er svo lítið og svo margir tengdir og innviklaðir að hver ver annan.


mbl.is Hætta hjá Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðans alvara

Ég fagna þessum skrifum Kristínar Sólveigar um alvarleika dauðans.  Dauðanum hef ég fengið að kynnast eins og svo margir aðrir.  Skyndilegum dauða og dauðaferli sem tók mörg ár.

Bróðir minn fór snögglega tíu ára gamall, lík hans lá heima þar til jarðaför fór fram.  Fósturfaðir minn fór snögglega og ég var víðs fjarri.  Þeir yfirgáfu þetta jarðlíf fyrir þrátíu og fjörutíu árum síðan. 

Erfiðasta ferlið var þegar nýfædd dóttir mín, fyrirburi, fékk fjórða stigs heilablæðingu og var dæmd til ævarandi fötlunar og veikinda.  Tæknivæðingin var orðin svo mikil að ástæða þótti að halda litlum fyrirbura á lífi, að mínu mati til að fylgjast með hvað tækninni tækist að gera.  Við vorum umluktar tækjum og tólum sem píptu á okkur dag og nótt.  Dóttir mín lá í lokuðum kassa, í öndunarvél með nálar víðsvegar í agnarlitlum líkama.  Hjartaaðgerð var gerð á henni tíu daga gamalli og áttahundruð og áttatíu grömm að þyngd.  - Lífið snerist um tækni, um að fylgjast með tækjunum, að taka blóðsýni á meðan foreldrið stóð vanmáttugt og eitt við hitakassann undrandi hvernig á því stæði að barnið ætti ekki möguleika á mannsæmandi lífi. 

Umhverfið var kuldalegt og lítið um hlýleg mannleg samskipti. Maður var stundum nefndur skrítinn afþví svara var krafist.  Erfið orð sem líka voru oft látið falla í garð manns sem örvita aðstaðanda.  Móðirin var þreytt, ambivalent (óstöðug) þessi orð voru rituð í dagskýrslunar og oft litið framhjá veikindum barnsins.  Það var lítið gert úr þeirri tilfinningu móðurinnar að vita hvenær eitthvað alvarlegt var að hjá barninu.

Þau þrjú og hálft ár sem dóttir mín lifði voru hræðileg hvað varðaði mannleg samskipti.  Þessi agnarlitla fjölfatlaða stúlka með stóru opnu augun sín og talandi andlitssvip var það fegursta en jafnframt það erfiðasta sem ég upplifði.  Ég elskaði þetta barn eins og hún var, aum, veikluleg og dauðvona. 

Dauðinn sótti hana fyrir tæpum fjórtán árum síðan, hún lést í fangi okkar foreldranna eftir að hafa barist við ógreinda heilahimnubólgu í fimm daga.

Ég var reið og bitur, ég kenndi sjálfri mér um að hafa með ýtni minni haft þau áhrif að heilbrigðisfólkið sinnti ekki hennar veikindum en einbeitti sér frekar að "öðruvísi" karakter mínum.

Þremur mánuðum síðan lést móðir mín, en hún hafði háð sitt dauðastríð í nokkur ár.  Banaleguna var hún umvafin kærleika barna sinna og lést hún með sína nánustu við sitt dánarbeð. 

Sjö mánuðum síðan fæddist annarr lítill fyrirburi, lítil stúlka sem lifði í fangi hræddrar örvæntingarfullrar móður, hún dó ekki ein eins og önnur lítil fóstur sem lifa í nokkra klukkutíma eftir fæðingu sína.

Ég syrgi þá sem eru farnir, en ég er þakklát fyrir það sem mér var gefið.  Sátt hefur náðst á milli mín og þeirra aðila sem mér fannst ekki sinna stúlkunni minni eða mér.  Ég er þakklát að hvorug dætra minna þurfti að há einar dauðastríð sitt.  Glöð að við systkinin vöktum yfir móður okkar þar til yfir lauk.

Við óttumst öll dauðann, óttumst okkar eigin dauða þegar við fylgjumst með þeim sem skilja við.  Við óttumst veikindi og allt það sem er öðruvísi og drögum okkur í hlé.  Ekki afþví við erum vond, heldur vegna þess að við erum vanmáttug og hrædd.

Ég er hætt að dæma og ég geri mér grein fyrir því að fólk innan heilbrigðisgeirans gerir mistök, en ég harma það ef ekki er hægt að sýna mannlega hlýju þegar greining um alvarlegan sjúkdóm, sem mun leiða til dauða, er borin á borð fyrir óttaslegna manneskju sem hefur þurft að ganga á milli lækna, fá ranga greiningu og jafnvel vandamálastimpilinn í veikindum sínum.

Ég vona og ég held að margt hafi breyst til batnaðar á þessum árum sem liðin eru frá dauðra dætra minna.

Mig langar ekki til að deyja ein, en ég held að líkurnar á því sé meiri en minni, þannig hefur þjóðfélagið þróast síðustu áratugi. 


mbl.is Virðing þegar dauðinn nálgast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýir stjórar

Nú er bara að bíða og sjá.  Ég er ekki það mikið að mér í fjármálum landsins að ég geti dæmt hvað er í gangi.  Ég vona bara að þeir gangi á sama veg til verks og við hjónin gerðum þegar atvinnuleysið hitti okkur - við tókum það rækilega til að við getum lifað þokkalegu lífi á tvöföldum atvinnuleysibótum.

Það þarf ekki að koma aftur svona brjálæði eins og við höfum lifað við síðustu ár, jafnvægi þarf að komast á, skuldir heimilinna að lækka, fólk þarf atvinnu og svo er bara að vera jákvæður.

Skil stundum ekki afhverju "secret" væri svona vinsælt, allir virðast hafa hugsað í öfuga átt við mátt leyndardómsins.  Landinn var löngu farinn að óttast sukkið sem í gangi var.


mbl.is Nýr seðlabankastjóri settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband