Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.8.2009 | 09:36
Til varnar skal brugðist
Hrein og tær snilld. Þvílíkur texti og innihald. Menn vissu hvað þeir voru að gera en vegna óregluvæddra og ógegnssæs markaðar þá töldu menn að best væri að lána einstökum lánendum en ekki kaupa í sjálfum sér því þar með væru þeir orðnir sakhæfir. Mig skortir orð og ég er farin að telja mig í heimskari kantinum, að hafa ekki dottið slíkt í hug sjálf þegar ég rak mitt eigið fyrirtæki, en ég hafði eingöngu aðgengi að heiðarlegum ráðgjafa og endurskoðenda sem taldi að best væri að vera heiðarlega- og lagamegin við línuna (ekki kokain línuna).
Ég vona að úr heimsku minni rætist og að mér takist að komast í gegnum nokkra áfanga í siðfræði, að hjarta mitt megi opnast og skilja vanmátt þessara vitru manna og kvenna sem komu af flóðöldu gjaldþrota fyrirtækja og heimila og tókst betur en mönnum á 12. öld, það er, að koma þjóðinni vafalaust á hausinn og reka okkur inn í nýlenduþrælkun aftur. Á íslandi ætla ég að vera og Ísland mun geyma mína ösku.
Nauðvörn rétt fyrir hrun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.8.2009 | 09:56
Hártoganir
Nei þú, ekki ég sagði jakkaklæddi strákurinn og sparkaði í sköflunginn á hinum. Þeir flugust á um hver hafði sagt hvað og rifu í hár hvors annars. Öskrin sem hrópuðu þú, nei þú, jú þú klufu loftið og raddirnar voru orðnar hástemmdar. Að lokum voru þeir komnir í hár saman og það þurfti erlendan risa til að stilla til friðar og var sá litli tekinn til hliðar og flengdur þar til ekki sá í hvítt hold á bossanum.
Strákar mínir, það borgar sig ekki að skrökva, sagði sá erlendi myrkur í máli. Þið vitið að Big Brother sér allt, veit allt og getur allt. Alles ist so schön.
Kaupþing átti hugmyndina en ekki Deutsche Bank | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2009 | 10:45
Opinberunarbókin
Það mætti ætla að Páll Hreinsson væri að vísa í opinberunarbók bíblíunnar þar sem fjallað er um Armageddon. Við eigum víst vont í vændum og þurfum að kvíða Íslandsendi fljótlega. Ég hef þegar hamstrað þunglyndis- og kvíðalyf svo ég komist í gegnum næstu mánuði og hreinlega sturlist ekki.
Ég hef ekki hugmynd um hvað er í raun og veru að gerast á bak við tjöldin. Öðru hvoru birtast hörmungarfréttir um eitthvað sem kannski eða kannski ekki hefur gerst og kannski eða kannski ekki hverjir bera ábyrgð. Haldið þið að þeir sem bera ábyrgð á bankahruninu og spillingu innan flokka og Alþingis undanfarinna ára séu ekki búnir að skjóta sér undan eða finn glufu í lagabókstafnum sem gerir þá ósnertanlega? Það held ég!
Að svo stöddu skiptir engu máli hverjum er um að kenna, gert er gert og verður ekki aftur tekið. Það sem mikilvægast er að sannleikurinn komi í ljós og að hægt verði að bregðast við komandi vátíðindum, hver svo sem þau eru, og gera landið aftur lífvænlegt fyrir ábúendur og þá sérstaklega yngra fólkið.
Hvert á ég að flýja ef landið verður gjaldþrota? Til annarra landa þar sem kreppa geisir líka? - Ég efast um að fáar þjóðir vilji taka við miðaldra íslendingum til þess eins að setja þá á bætur!
Þessi rannsóknarnefnd er eins og hópur sérfræðra lækna sem funda saman um krabbameinssjúklinginn og segja við hann, fréttirnar eru slæmar en þær verða verri sem við munum færa seinna.
Verri fréttir en nokkur nefnd hefur þurft að færa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.8.2009 | 10:50
Vaxtamunur
Ég labba með bakpoka í lágvöruverslun. Fer í strætó niður í bæ. Tek hverja krónu sem ég á og borga inn á höfuðstól íbúðarláns. Lita mitt gráa hár sjálf og fæ heimaklippingu. Læt mig ekki dreyma lengur um ferðir utanlands. Tek með mér samferðalinga þegar ég fer í mitt sumarfríi norður og næ þannig bensínkostnaðinum niður.
Læt mig ekki detta í hug að sparnaður færi mér eitthvað öryggi í náinni framtíð. Allt þetta í boði fárra "ógæfumanna" eins og Steingrímur J. sagði. Nú hefur tekið við vinstri stjórn og almenningur er kominn í stofufangelsi.
Ég ætla samt ekki að kvarta því ég hef það betra en þorri fólks á Íslandi.
Vaxtamunurinn eykst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.8.2009 | 10:41
Kostnaður
Þetta kemur mér ekki á óvart. Það voru allir að spila stórt og slá um sig og því ekki að fá dýrustu ráðgjöfina. Ekkert ólíkt því þegar að fólk horfir á það sem dýrast er á matseðlinum og kaupir það því það gefur til kynna mikilvægi þess. Vorum við ekki stærst, best og hamingjusömust?
Menn glötuðu sér í spillingunni og voru með bundið fyrir augun svo þeir sæu ekki ósómann sem þeir voru staddir í, ég held að þeir hafi líka klæðst gullstígvélum til að finna ekki fyrir aurnum sem þeir stóðu í.
Nú er bara að biðja og bíða og sjá til hvert stefnir. Ég er vanmáttug í þessum aðstæðum.
Ráðgjöf kostaði milljarð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.8.2009 | 09:36
Eftirsjá
Harmar persónulegar deilur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.8.2009 | 09:26
Misnotkun
Þekking er til margs nýtileg og það tekur í að hópur vel menntaðs fólks skuli standa að baki svikamyllu þeirrar er leiddi til bankahruns á Íslandi og víða.
Ætli margir séu ekki bara fæddir og aldir upp með siðblindu og sjá ekkert athugavert við það að spila með fjárhagslegt líf heillrar þjóðar.
Ég vona að það nám sem ég á fyrir höndum kenni mér ekki "the trix of the trade" þ.e.a.s. að siðferði mitt aukist að gæðum og að ég verði mildari og minna gráðug manneskja.
Grunur um misnotkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.8.2009 | 13:52
Fólksflótti
Ég er nú ekkert á þeim buxunum að gefast upp og leggja land undir fót á erlendri grundu. Gerði það fyrir 30 árum síðan en kaus að koma heim á klakann eftir 7 ára fjarveru. Þá var ég ung og full orku og hefði getað lagt heiminn að fótum mér hefði ég haft eitthvað af gáfum sem útrásarvíkingar og þeirra hjálparmenn hafa. En ég er meðalljón, sem trúði á að best væri að búa á Íslandi, er eiginlega enn þeirrar skoðunar. Náttúran er stórkostleg og það hefur verið kostur í mínum augum hvað við erum mannfá. En nú horfir öðruvísi við, mannfæðin gerir það að verkum að stórar skuldir leggjast á hvern einstakling í landinu, skuldir sem aldrei verður hægt að borga. Ekki bætir um ef unga fólkið sér sig knúið til að flýja land vegna þess að það á sér ekki framtíð hér heima.
Hún er erfið sú tilhugsun að ég og fleiri dagi upp sem gamalmenni í kotræskni með fá sem engan til að hlúa að mér þegar líkami og sál geta ekki meir. - Segi bara TAKK fyrir mig þið sem hafið kosið eigin rann í stað fyrir að huga fyrst að þjóðinni.
Mesta hættan fólksflótti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.8.2009 | 09:36
Stórskuldug
Ég fór í fréttabann meðan á sumarfríi mínu stóð. Vildi frekar njóta fegurðar á annesjum en að sitja með kvíðahnút yfir þeim fjárhagslegum hamförum sem riðu og eru að ríða yfir þjóðina.
Greindarvísitala mín nær ekki það hátt að ég skilji hvernig hægt er að lána veð í sjálfri skuldinni, því um annað er ekki að ræða þar sem lán var tekið hjá félagi sem maður sjálfur var eigandi að og skuldaði vafalaust greiðsluna fyrir kaupunum á hlutabréfunum.
Menn verja hvorn annan og ég hef ekki hugmynd hverjir það eru í stjórn landsins sem vilja verja þá sem fóru með slíka gjörninga (með fullri vitund um hver útkoman yrði fyrir land og þjóð). Eða hafa lög verið sett fyrir löngu sem verja menn gegn stórfelldum prettum og svikum? - Ég kæmist ekki upp með það að standa ekki skil á mínum skuldum, ég yrði gerð gjaldþrota.
Hér hafa gripið menn hin ægilegasta spennufíkn, menn svo langt leiddir að þeir gátu ekki stoppað. Núna hafa þeir spennuna hvort þeir verði sóttir til saka eður ei og veit ég ekki hvort þeir brosi út í annað.
Stórskuldug aflandsfélög í eigu hluthafa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.7.2009 | 09:41
Ríkið ræður
Ég er bara smápeð á skákborði hagkerfis Íslands. Allar upplýsingar um Icesave, skuldastöðu landsins og inngöngu í ESB hef ég úr fréttamiðlum landsins. Þar sem ég er ekki við stjórnvölinn þá er mér í raun um megn að vita hina raunverulegu stöðu sem hin íslenska þjóð er í þessa stundina.
Mér er nær lagi að hugsa sem svo að Seðlabanki og ríkisstjórn hafi ráðið sér her af endurskoðendum, lögfræðingum og öðrum menntuðum einstaklingum sem kunna allskonar brellur til sannfæra sauðheimskan almenning um að það sé í lagi að hækka beina og óbeina skatta á þá.
Jóhanna og Steingrímur J. eru ekkert annað en andlit út á við og hafa lítið vald í raun yfir því sem er að gerast í efnahagskerfinu sem nú riðar til falls. Þau bæði voru mjög loforðagjörn fyrir kosningar og var fólkinu í landinu sagt að skjaldborg yrði slegin um heimilin. Annað hefur nú komið í ljós. Skattpíningin er nú að sýna sitt rétta andlit og vígtennurnar beraðar.
Það setur að mér ótta sem atvinnulausri konu á leið í háskólanám hvað verði um mig þegar ég verð orðin ellilífeyrisþegi, og það eru ekki svo mörg ár þangað til. Mun ég ásamt öðrum íslendingum geta gengið rólega inn í síðasta fasa lífs míns eða bíður mín grámygluleg fátækt og hungursneið líkt þeirri sem reið yfir fólk á fyrsta og öðrum tug 19. aldar? - Verður allt unga fólkið farið sem hefði getað hlúð að sjúkum og deyjandi? Verður Ísland einangrað eiland í Ballarahafi og óbyggt að öld liðinni?
Það má líkja efnahagshruninu við kjarnorkusprengju sem féll á landið, það tekur bara aðeins lengri tíma fyrir afleiðingarnar að koma í ljós.
Forsætisráðherra mun örugglega ljúka máli sínu með orðunum: Guð blessi Ísland.
Ríkið ræður við Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)