Sorglegt

En svona gerast hlutir þegar maður er einfari.  Sumir kjósa að vera einir og leita aldrei eftir félagsskap.  Eða kannski var maðurinn ekki einfari heldur veikur og í engum tengslum við fjölskyldu sína.  Sumir deyja einir.  Allir viðkomandi eiga samúð mína.
mbl.is Fannst látinn í íbúð sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svín

Ég á nokkrar purusteikur í frysti sem ég keypti ódýrt í Bónus.  Ætli þær séu írskar?
mbl.is Funda vegna írsks svínakjöts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóðugur gærdagur - viðkvæmir ekki lesa

Jamm.  Hann var blóðugur og skrítinn dagurinn í gær og sannar að oft er stutt á milli þess að vera hraustur og liggja síðan undir hnífnum, en þetta er nákvæmlega það sem gerðist með mig í gær. 

Ég var búin að njóta tónleika um morgunin þar sem dótturdóttir mín lék á flautu, skila drengnum til móður sinnar eftir næturveru hjá mér.  Sitja á Cafe Paris með fjölskyldunni sem hópaði sig á tónleikana.  Ég var eitthvað smágruggin og Rósa frænka komin í heimsókn eftir að hafa ekki sést í hálft ár.  Svo þurfti að taka einn aukatíma í stærðfræði hvar Matrix heimur stærðfræðinnar opnaðist mér skyndilega.  Mér leið skringilega og fann heitan vökva renna frá mér.  Ég reyndi að flýta mér eins og ég gat til að komast út, skammaðist mín fyrir ástandið og upplifði mig óhreina kona eins og lýst er í Gamla Testamentinu. 

Þegar út á götu var komið stóð ég í miðjum blóðpolli, pollróleg í rauninni.... furðulegt undir svona kringumstæðum.  Gekk að bílnum mínum og lagði regnjakkann yfir sætið og keyrði mig á LSP, þar sem ég var sett í bráðaagerð og hreinsuð út.

Mér finnst þetta leiðinlegt að breytingarskeiðið fari svona með okkur konur.  Ekki nóg að við fáum hitaroða í andlitið og að líkami okkar svitni ógurlega (einkenni, sem ég er að mestu laus við) heldur getur hið blessaða líffæri sem hlúir að og nærir börn á myndunarskeiði þeirra tekið sig til og búið til einhvern fjandann sem gæti orðið að einhverju sem vex og vex og þarf síðan að taka.... já, lífið er skrítið og maður veit ekki hvað býður manns handan hornsins. 

Nú er ég búin að fatta að lífið er mikilvægara en einhver kreppa.  Samvistir við fólk og hlýjar hendur gefa af sér meiri vexti en innistæður á bankabók eða sjóðum.

Nú er framundan hjá mér að reikna og reikna í dag, próf á morgun, sleppi prófi annað kvöld og fer í sjúkrapróf á föstudag og síðan próf á þriðjudags morgun.  Ég held að allur prófkvíði og lélegt sjálfsmat hafi verið skrapað úr mér  í gær og að ég bara brilli á þessum prófum.


Grýlusöngur

Platafinn samdi þennan texta handa drengnum, sem sefur á sínu græna eyra núna eftir að hafa æft sig.... en segir að gamla stellið sé ekki í lagi að breyta börnum í endur. 

Það á að gefa öndum börn
að bíta í á jólunum,
kúafjós og kæstan örn,
svo kreista þær úr bólunum,.
Væna flís úr fýldri görn
sem féll úr bekk á hólunum.
Nú á hún gamla Grýla börn
sem grillar hún á jólunum.


Líf að veði

Ég er fegin að hafa ekki verið á staðnum þennan umrædda laugardag.  Þessi fréttaflutningur minnir mig á réttir í gamla daga þegar féið hljóp í allar áttir og maður átti fótum sínum fjör að launa. 

Mér er sagt að fólk sé að nota síðasta sjens áður en allt fer til andskotans eftir áramót, en þá fyrst fer kreppan að segja til sín og afleiðingar af uppsögnum á vinnumarkaðinum að koma í ljós.

Þetta eru ótrúlegir tímar sem við lifum á og ótrúleg mynd að horfa á stjórnlausan lýðinn þeysast um BT verslunina.


mbl.is Lífhrædd á íslenskri útsölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stress

Sú gamla ætlar að þreyta próf á mánudag og þriðjudag.  Tvö á mánudag og eitt á þriðjudag.  Hver haldið þið að hafi elt þá gömlu uppi? Jú! Prófkvíðinn, svo andstyggilegur að ég er með útblásinn kvið og einhverjar rokur úr afturendanum.  Þessu linnir víst aldrei, virðist ekki skipta máli að maður er búin að viða að sér heilmiklar reynslur úr lífinu.  Komist ágætlega áfram og í góðum málum þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu. 

En ég er hugrökk, annað er ekki hægt að segja því sá sem er hugrakkur gengur á vit óttans og tekst á við hann.  Hinir sem aldrei finna fyrir hræðslu eða kvíða búa ekki yfir hugrekki því þeir þurfa ekki að takast á við þessa púka Alien ...... en ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér.

Sumir spyrja afhverju ég sé að nenna þessu (menntaskólanáminu) kominn á minn aldur og hver tilgangurinn sé að fara í háskólanám og útskrifast nær sextugu. Jah! - ætli það sé ekki afþví ég held að ég sé ætíð ung og að líf mitt stöðvist aldrei, að það séu óteljandi tækifæri fyrir mig þarna úti. 

Ég er atvinnulaus og veit ekki hvenær ég fæ vinnu.  Ég nenni ekki að sitja heima og gera ekki neitt og því ætla ég að fara þessa námsleið. 

 


Sá leyndardómsfulli

Ég er öruggleg ásamt mörgum öðrum ekki í stakk búin til þess að finna lausn á þeim vanda sem nú steðjar að þjóðinni af völdum efnahagshamfara.  Ég skil voða lítið hvað það var sem kom hruninu af stað.  Hvort það voru hinir nýríku sem keyptu upp fjölmiðlana eða hinn leyndardómsfulli sem sem situr í stóra svarta kubbaldanum sem geymir peninga þjóðarinnar.

Það er eitthvað í mér sem segir að við séum sú þjóð að láta ekki kúga okkur.  Við neitum að vera leidd til slátrunar án þess að sporna við og okkur er það fyrirmunað að lúta einræðisstjórn.  Eða hef ég lifað í blekkingu?

Ég hef oft horft upp hvert ógurfrekja leiðir fólk og hvernig skapofsamanneskjurnar klífa hvern metorðastigann á fætur öðrum.  Fyrir neðan stigann eru þeir sem hafa ekki skap til að sporna á móti frekjunni og láta það átyllislaust að hinn freki rífi allt og tætir á leið sinni upp.  Skildi okkar góða og rómaða stjórn sitja í kassanum og leyfa frekasta krakkanum að ata sig út á kattarskitnum sandi?

Ég held að við séum nýríkt (núna nýfátæk að verða) vanþróað land og værum við ekki stödd í miðju Atlandshafi á milli Evrópu og BNA og hefðum yfir vopnum að ráða, skipti ekki máli að það væri sverð, spjót og loftbyssa að við værum stödd í miðju uppreisnar þar sem ekki bara eggjum og tómötum væri kasta heldur væri gripið til morðtóla.  Það er svo hárfín línan sem skilur á milli okkar og fátæku landanna sem rísa upp og grípa til vopna.

Hvert stefnir ef hvert heimilið á fætur öðru fer á hausinn?  Hvað er það sem gerir það að verkum að ungt vel menntað fólk vill setjast hér að og eyða ævinni fast í skuldarfeni og hlekkjað við verðtryggingargrýluna?  Hvað gera ríkisstjórnin, bankarnir og lífeyrissjóðirnir ef fólk tekur upp á því í hundraðavís að skila lyklunum til bankans og hætta að borga af lánunum?  Ég er viss um að þá komi babb í bátinn og að stjórnvöld átti sig á því að fyrr hefði átt að grípa í taumana.

Ég er hrygg yfir stöðu mála í dag og það sem hryggir mig mest er leyndin sem menn bera fyrir sig.


mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðslustöðvun

Jæja, þá er greiðan komin alla leið vestur til USA og nú skal stöðva allar greiðslur.  Ég er ekkert hissa og öll kurl eru ekki komin til grafar. 

Það sem ég hef helst áhyggjur af núna er það að ég er farin að nota æ kerlingalegri brjóstahöld.  Í kreppunni hefur maður ekki efni á blúndum. 


mbl.is Kaupþing óskar eftir greiðslustöðvun í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjúkhenti presturinn

Jæja, séra minn.  Þú mátt ekki faðma né kyssa sóknarbörnin þín og allra síst máttu segja að ung stúlka sé falleg og þú skotinn í henni.  Fyrir það verður þú borinn sökum og færður fyrir Héraðsdóm.  Öll faðmlög og allar strokur eru bannaðar og á með lögum að grýta alla karlmenn sem það gera og helst opinberlega eins og þegar ungar stúlkur í Sómalíu eru grafnar upp að höfði og grýttar fyrir þær sakir einar að hafa verið nauðgað.

Ég man eftir þessum umræðum fyrir rúmum 20 árum síðan þegar ég bjó í Hollandi, þá reið yfir holskelfa af ásökunum um kynferðislega áreitni á stúlkubörnum en lítið var rætt um áreitnina sem ungir drengir verða fyrir.  Umræðan komst á það hátt stig að feður, bræður, afar og frændur treystu sér ekki til þess að faðma stúlkubörnin af ótta við að verða ákærðir fyrir kynferðisbrot.  Það voru ýkja margir saklausir sem fengu að líða fyrir perraskap brotamannana.  Þetta hafði þau áhrif á mig á þeim tíma og situr enn í mér að ég á erfitt með að skilja stúlkubarn eftir í umsjá fullorðins karlmanns og þar með frem ég glæp gagnvart karlkyninu. 

Auðvitað, ég man eftir mönnum sem klipu í mig þegar ég var um 12 ára gömul, sem slefuðu í eyra mér og vildu fá mann með sér afsíðis.  Þetta voru mennirnir sem pukruðust í laumi og létu aldrei ná sér.  En það voru margar sterkar og hlýjar karlmannshendur sem klöppuðu mér á vanga eða struku axlir af kærleika og jafnvel í dag þá get ég átt það til að lauma hendi minn í heitan hramm sem styrkir mig á erfiðri stundu.

Ég ætla ekki að kasta steinum að séra Gunnari, ég var ekki á staðnum og hef ekki hugmynd um hvað gerðist þennan umrædda tíma, en ég bið fólk um að staldra við áður en dómar fella og fara ekki út í nornaveiðar.

Ég tek undir með einni sem bloggaði um þessa frétt, varið stúlkubörn um faðmlög, kjass og leik með karlmönnum þar til að jafnvel augnráðið eitt nægir til að dæma menn. 

 


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of feit eða ekki of feit!

Ég las skemmtilegt blogg hjá henni Jónu jonaa.blog.is, en hún er snilldarpenni og kann að gera góðlátlegt grín að sjálfri sér og sínum okkur hinum sem lesum bloggið til skemmtunar.  Ég sjálf staldra oft við hennar færslur og fara um hausinn á mér margar hugsanir.

Í dag  var inntakið fita, ekki steikingarfita, heldur fitan sem sest utan á okkur.  Það er fita út um allt og á eftir að verða einn meiri fita þegar hátíðarhöldum líkur.  Líkamsræktarstöðvarnar verða sennilega einu fyrirtækin sem ná einhverjum hagnaði inn í janúarmánuði, nema þjóðin taki sig í gegn og grenni sig í kreppunni.

Ég er svo heppin að hafa utan á mér ein 20 aukakíló og reiknast mér til að hún dugi mér út krepputímabilið.  Aukafituna nota ég til að hlýja eiginmanninum á köldum vetrarnóttum.  Rassinn á mér en það þokkalega bólstraður að ég finn ekki fyrir stólgarminum sem ég sit löngum á við endurskriftir á glósum.  Svo er aukafitan líka hin ágætasta inflúensubólusetning, því ég fæ varla eina einustu pest. ´

Það sem gerist í kreppunni mér til skeflingar er að Rubens formið á líkama mínum er að breytast.  Mjúku línurnar eru að gefa eftir og húðin sígur aðeins niður á við.  Ég fæ líka ákveðnari og kvenskörungslegri svip á andlitið þar sem fitan fer fyrst þaðan.  Ég verð beinaber og viðbeinið fer að sýna sig og skagar stolt yfir rýrnandi barmi mínum.  Ef svona heldur áfram þá verður lítið fyrir ormana að naga þegar sál mín yfirgefur beinaberan líkamann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband