2008 - 2009

Árið hefur verið viðburðarríkt eins og svo mörg önnur ár í lífi mínu.  Þetta er ekki versta eða erfiðasta ár sem ég hef lifað, en ég geri mér grein fyrir því að fyrir marga sem eru að byrja lífsgöngu sína, eða þá sem hugðust lifa af vænum lífeyri, hafa vonir brostið.

Það tekur samt í að missa atvinnunina, að sjá á eftir spariféinu komin á miðjan aldur.  Ég þarf að bægja frá mér þeim ótta að ég fái aldrei vinnu aftur og þess vegna ákvað ég að fara í skóla og klára stúdentinn.  Slys í október er aðeins að trufla þá áætlun, en ég ætla að þrjóskast við.  Svo kom sá skellur að eiginmaðurinn missti vinnuna í lok október og skrapp þá aðeins saman maginn. 

Núna erum við að læra að lifa upp á nýtt.  Allt keypt ódýrt.  Strætó notaður og bíllinn aðeins notaður ef nauðsyn krefur.  Ekki eru fyrirsjáanleg ferðalög til sólrænna stranda né borgarferðir þar sem stíft er eytt í verslunum.  Engin ný föt verða keypt  heldur verður lagst í það að minnka magamálið og ná sér niður um 3 númer og komast í flottu fötin sem eru í langri röð á fataslánni í skápnum í svefnherberginu.  Ég fæ frænku mannsins míns til að klippa mig og ég lita hárið heima með aðstoð vinkonu.  Augnbrúnir lita ég sjálf en augnhárin fá aðrir að sjá um.  Ég geng í staðin fyrir að æfa á hlaupabretti og tek sundsprett á ódýru árskorti. 

Við erum nú að temja okkur þann lífsstíl að lifa af helmingi minni tekjum en við höfum verið með síðustu ár.  Heppnin hefur verið með okkur þar sem við erum með íbúðalán með 4.15% vöxtum sem eru ekki breytanlegir og skuldastaðan er ekki mikil.  Þannig að við höfum það betra en margur annar.

Vonin er sú að heilsa haldist bæði líkamlega og andlega, að fjölskyldutengslin styrkist og að fólk sé hvort öðru innan handar.  Svo ætla ég ekki að láta reiði eða biturð stjórna lífi mínu árið 2009.  Þetta ár verður ár æðruleysis.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Gleðilegt ár og munum að Nelson Mandela sagði þegar hann var spurður hver væri hans helsti styrkur "það er auðmýktin". Auðmýkt og æðruleysi er góður kostur í stöðunni.

Vilborg Traustadóttir, 1.1.2009 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband