Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
1.1.2009 | 23:28
Nýtt sóknarfæri
Forsetinn okkar kann að sigla á milli skers og bryggju. Lítil afsökunarbeiðni er plástur á fjárhagsleg meiðsl þjóðarinnar. Nú endurreisir almúginn sig meðan útrásarvíkigarnir sóla sig í skattaparadísum. Skyldi Ólafi vera boðið þangað. Þjóðfélagið í dag og ráðamenn eru alger farsi. Það er ekkert að marka lengur og mig ekki heldur.
Þjóðarátak nýrrar sóknar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.1.2009 | 15:46
2008 - 2009
Árið hefur verið viðburðarríkt eins og svo mörg önnur ár í lífi mínu. Þetta er ekki versta eða erfiðasta ár sem ég hef lifað, en ég geri mér grein fyrir því að fyrir marga sem eru að byrja lífsgöngu sína, eða þá sem hugðust lifa af vænum lífeyri, hafa vonir brostið.
Það tekur samt í að missa atvinnunina, að sjá á eftir spariféinu komin á miðjan aldur. Ég þarf að bægja frá mér þeim ótta að ég fái aldrei vinnu aftur og þess vegna ákvað ég að fara í skóla og klára stúdentinn. Slys í október er aðeins að trufla þá áætlun, en ég ætla að þrjóskast við. Svo kom sá skellur að eiginmaðurinn missti vinnuna í lok október og skrapp þá aðeins saman maginn.
Núna erum við að læra að lifa upp á nýtt. Allt keypt ódýrt. Strætó notaður og bíllinn aðeins notaður ef nauðsyn krefur. Ekki eru fyrirsjáanleg ferðalög til sólrænna stranda né borgarferðir þar sem stíft er eytt í verslunum. Engin ný föt verða keypt heldur verður lagst í það að minnka magamálið og ná sér niður um 3 númer og komast í flottu fötin sem eru í langri röð á fataslánni í skápnum í svefnherberginu. Ég fæ frænku mannsins míns til að klippa mig og ég lita hárið heima með aðstoð vinkonu. Augnbrúnir lita ég sjálf en augnhárin fá aðrir að sjá um. Ég geng í staðin fyrir að æfa á hlaupabretti og tek sundsprett á ódýru árskorti.
Við erum nú að temja okkur þann lífsstíl að lifa af helmingi minni tekjum en við höfum verið með síðustu ár. Heppnin hefur verið með okkur þar sem við erum með íbúðalán með 4.15% vöxtum sem eru ekki breytanlegir og skuldastaðan er ekki mikil. Þannig að við höfum það betra en margur annar.
Vonin er sú að heilsa haldist bæði líkamlega og andlega, að fjölskyldutengslin styrkist og að fólk sé hvort öðru innan handar. Svo ætla ég ekki að láta reiði eða biturð stjórna lífi mínu árið 2009. Þetta ár verður ár æðruleysis.
15.12.2008 | 23:03
Maðurinn með hattinn
Sem kom ætíð fram sem ærlegur og heiðarlegur blaðamaður er nú búinn að koma upp um sig. Ég held að vírusinn siðblinda sé orðinn ægilegri og nánast jafn slæmur og svarti dauði á miðöldum. Menn ljúga í kross og það sýnir sig að fjölmiðlum er ekki treystandi. Þegar hægt að kaupa Reyni til að þegja þá er það staðreynd þess að peningagreifarnir hafa völdin á bak við tjöldin, en ekki sannleikurinn látinn liggja á milli hluta eða hagræddur eftir þörfum.
Ég þarf aðeins að skoða eigið brjóst og athuga hvort smitið hafi náð til mín. Það eru komnir svartir blettir á tunguna á mörgum eins og sunnudagaskólinn kenndi þegar ég var barn. Nú ætla ég að fara að bursta tennur og tungu.
Íhugar málsókn gegn Kastljósi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2008 | 11:12
Brownie´s
Það er alltaf sama sagan. Fullorðnir krakkar að slást í sandkassa og arga síðan hver eigi stórasta hvað í heimi. Ég er mötuð af því sem ég les í blöðum og svo því sem gerist á eigin skinni í breytingum sem verða á þjóðfélagsháttum. Ég blómstra að hluta til í góðæri en það sækir líka að mér leiði og þungi. Þegar við (Íslendingar) verðum aftur eins og við vorum - þurftum að taka á honum stóra okkar - þá birtist tilgangurinn. Ég þarf að hafa fyrir því að njóta lífsins. Góðærið gerði mig gráðuga og feita.
Samt er það skelfilegt til þess að hugsa að skapgerðarbrestir eða von um völd, frama og frægð umbreyti fólki á þá vísu að það sparki í fámennara liðið, ég vil ekki segja minnimáttar því það erum við Íslendingar ekki. Allt þetta jakkaklædda fólk sem stýrir heiminum hugar mest að eigin velferð, en innan um eru þó alltaf heiðvirðir einstaklingar sem bera hag þjóða sinnar fyrir brjósti og rísa ofar þeim sem fela sig.
Þekki ekki Gordon Brown persónulega, en honum hefur örugglega verið stýrt af æðri hendi og sagt að taka í hnakkadrambið á víkingunum sem voru að leggja undir sig England að nýju og voru að endurgera atburðinn þegar norrænir víkingar herjuðu á Lindisfarne og hleyptu öllu þar í bál og brand.
Það er von mín að sem fæstir lendi á vonarvöl á þeim tímum sem nú eru framundan, en það er vissan að þeir féminni finna verst fyrir kreppunni.
Brown sparkaði í Íslendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
3.12.2008 | 10:26
Mjúkhenti presturinn
Jæja, séra minn. Þú mátt ekki faðma né kyssa sóknarbörnin þín og allra síst máttu segja að ung stúlka sé falleg og þú skotinn í henni. Fyrir það verður þú borinn sökum og færður fyrir Héraðsdóm. Öll faðmlög og allar strokur eru bannaðar og á með lögum að grýta alla karlmenn sem það gera og helst opinberlega eins og þegar ungar stúlkur í Sómalíu eru grafnar upp að höfði og grýttar fyrir þær sakir einar að hafa verið nauðgað.
Ég man eftir þessum umræðum fyrir rúmum 20 árum síðan þegar ég bjó í Hollandi, þá reið yfir holskelfa af ásökunum um kynferðislega áreitni á stúlkubörnum en lítið var rætt um áreitnina sem ungir drengir verða fyrir. Umræðan komst á það hátt stig að feður, bræður, afar og frændur treystu sér ekki til þess að faðma stúlkubörnin af ótta við að verða ákærðir fyrir kynferðisbrot. Það voru ýkja margir saklausir sem fengu að líða fyrir perraskap brotamannana. Þetta hafði þau áhrif á mig á þeim tíma og situr enn í mér að ég á erfitt með að skilja stúlkubarn eftir í umsjá fullorðins karlmanns og þar með frem ég glæp gagnvart karlkyninu.
Auðvitað, ég man eftir mönnum sem klipu í mig þegar ég var um 12 ára gömul, sem slefuðu í eyra mér og vildu fá mann með sér afsíðis. Þetta voru mennirnir sem pukruðust í laumi og létu aldrei ná sér. En það voru margar sterkar og hlýjar karlmannshendur sem klöppuðu mér á vanga eða struku axlir af kærleika og jafnvel í dag þá get ég átt það til að lauma hendi minn í heitan hramm sem styrkir mig á erfiðri stundu.
Ég ætla ekki að kasta steinum að séra Gunnari, ég var ekki á staðnum og hef ekki hugmynd um hvað gerðist þennan umrædda tíma, en ég bið fólk um að staldra við áður en dómar fella og fara ekki út í nornaveiðar.
Ég tek undir með einni sem bloggaði um þessa frétt, varið stúlkubörn um faðmlög, kjass og leik með karlmönnum þar til að jafnvel augnráðið eitt nægir til að dæma menn.
Sýknaður af ákæru fyrir kynferðisbrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)