Barn fékk að deyja - dóttir mín fékk að deyja

   

   Svo agnarsmá komst þú inn í þennan heim og eins og veikburða fugl hófst þú lífsferð þína.

    Grátur þinn var bergmál úr fjarska sem fjaraði hægt út.

 

   Þú komst of fljótt og ætlaðir ekki að dvelja.  Stormar lífsins blésu í kringum þig áköf og kröftug voru veðrabrigðin í lífi þínu.

   Þú komst sem mikill kennari inn í líf okkar og sameinaðir og þroskaðir sundurtættar sálir.

   Þú talaðir ekki með orðum en blá og  greindarleg augu þín sögðu meira en orð margra spekinga.

   Líkaminn mikið fatlaður en hugurinn hreinn og óflekkaður.

  Þetta varst þú Selma Rún, dóttir mín.

  

   ------------------------------------------------------------------------------------

 

 Við pabbi þinn ákváðum í sameiningu að best værir að þú réðir þessu sjálf (að deyja).

    Ég fór fram og bað um að allar slöngur og nálar yrðu fjarðlægðar og að þú yrðir færð inn á herbergi til okkar.

    Þetta var samþykkt og komið var með þig til okkar.

    Við lögðumst upp í rúm með þig á milli okkar og þar yfirgafst þú mjög friðsældarlega þetta jarðlíf.

    Pabbi þinn tók þig látna í fang sér og gekk með þig um gólf í hinsta sinn.

 

------------------------------------------------------------------------------------------  

 

Ég hjálpaði til við að baða litla kroppinn þinn og klæddi þig í betri föt.  Þú varst friðsæl á svipinn og öll þjáning var horfin.

   Eins og lítil postulínsbrúða lást þú þarna með kertaljós og rósir við dánarbeð þinn.  Föl fegurð þín var ekki af þessum heimi.

 

------------------------------------------------------------------------------------------

 

Það er komið haust og næturnar eru ekki lengur bjartar.  Það haustar í hjarta mínu og mig langar til að taka flugið og fljúga þangað sem þú ert.

  Ég bíð eftir vetrinum til að geta lagst í hýði, gleymt öllu og vaknað aftur að vori til nýs lífs.

   Minningarnar líða framhjá, ég reyni að grípa í myndina af þér og draga þig til baka, en ég gríp í tómt því þú ert farin.

   Það er bara skugginn þinn sem er til staðar.

 


mbl.is Barn látið deyja samkvæmt dómsúrskurði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TARA

Yndislega fallegt en þó svo sorglegt....ég er viss um að hennar er vel gætt af góðum vættum, þar til þið sameinist henni...og hinni dótturinn líka...

TARA, 21.3.2009 kl. 17:53

2 Smámynd: Sigríður Ásdís Karlsdóttir

Samhryggjist þér ynnilega. Hef verið þarna sjálf, fyrir margt löngu. það autt og tomt í hjarta mínu. Það vantar einn í hópinn minn.  Eins og söknuðurinn verði meiri með aldrinum.  þá var heldur ekki lof að syrgja, bara gleyma halda áfram og ekki líta tilbaka.  En við munum hittast aftur það veit ég. Kærar kveðjur til þín.

Sigríður Ásdís Karlsdóttir, 21.3.2009 kl. 18:57

3 Smámynd: TARA

Sigríður, það er leitt að heyra að sorg þín aukist með árunum...tíminn læknar engin sár en hann linar þau og maður hugsar til baka með angurværð og söknuði en sársaukinn hefur þó minnkað mikið...það er að minnsta kosti mín reynsla. Og láttu aldrei neinn segja þér að gleyma þeim látnu..talaðu um þá og brostu að góðum minningum...

TARA, 21.3.2009 kl. 19:02

4 Smámynd: Ólöf de Bont

Sársaukinn rénar en skýtur þó öðru hvoru upp kollinum.  Lífið heldur áfram og það er gott að lifa, ég man það góða við stelpuna mína og er þakklát fyrir að hún þjáist ekki.  Ég sakna hennar alltaf, sakna hennar sem litlu fötluðu stelpunnar minnar. 

Ég vil ekki gleyma eða grafa, minningarnar mega eiga sér stað, stundum brosi ég, stundum hlæ ég að prakkaraskapnum í stelpunni minn og stundum græt ég.

Ólöf de Bont, 21.3.2009 kl. 19:35

5 Smámynd: egvania

Ég vil ekki gleyma ég vil geima en þó er svo að sársaukinn kemur alltaf aftur og aftur svo sterkur og tómið er svo sárt.

egvania, 21.3.2009 kl. 19:43

6 identicon

Svo falleg færsla en svo sár lesning.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 20:16

7 identicon

Hey hér ertu þá :) var alveg hætt að tékka á gamla blogginu  en þú ætlaðir alltaf að senda mér slideshow sem nemar gerðu um engilinn þinn, bíð spennt 

Gerður (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 21:34

8 Smámynd: Guðrún Pálína Karlsdóttir

Guð blessi ykkur

Guðrún Pálína Karlsdóttir, 21.3.2009 kl. 23:16

9 identicon

Óskaplega fallega skrifað. Votta þér innilega samúð að hafa þurft að kveðja litlu stúlkuna þína.

Guð veri með ykkur.

Ragnheiður Elín Clausen (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 01:22

10 identicon

Ég hef alltaf sagt að enginn á að þurfa að sjá á eftir barni sínu. Hver og einn á að

fara eftir aldri.... þannig vil ég hafa það þegar við kveðjum þetta

blessaða jarðlíf, mín kæra.

Þegar ég missti það sem mér var kærast  árið 1992 sem var móðir mín

elskuleg  aðeins 59 ára gömul og ári  seinna fæddist í fjölskylduna

lítil mær sem lifði aðeins tæp 4 ár. Mikið vansköpuð og að mati lækna átti

hún frænka mín litla ekki  að getað lifað nema kannski 2 ár með því að

verða eingöngu á sjúkrahúsi hennar litla líftíma.

En árin í plús fengu foreldar hennar og við hin með innilegri ást og ummhyggju

og með þeirri ákvörðun vitandi að litla barnið þeirra yrði ekki langlíft ákváðu þau að taka hana algerlega heim og hugsa um hana þennan litla tíma sem þau fengu

á þessu jarðríki. Það var í einu orði sagt guðsgjöf. Hún litla systurdóttir mín

hefði ekki getað verið í betri höndum.

þau vildu fyrst og fremst gera allt sem lífið gat boðið uppá til að geta

verið til staðar þó svo að þau væru ekki fullviss um að litla vinan hefði þá

getu til að vita af þeim kring um sig en það voru svo mörg..ótalmörg merki

frá minni litlu frænku sem gáfu til kynna að hún vissi af þeim með snertingu.

Pabbi hennar lagist oft við hlið hennar og strauk henni og kyssti.

Og þá og þegar hann var óvart búinn að safna einhverju skeggi eftir langa vinnudaga  fóru litlu hendurnar að finna og strjúka skeggihýunginn sem

varð til þess að faðir hennar lét vaxa sér skegg sem hún strauk og togaði í meðan hún lifði, þessi litla frænka mín.

Þessi litla elska kvaddi þetta líf rétt fyrir 4ra ára afmælisdaginn sinn.

Ég bið alla góðar vættir að geyma þig og þína og veit að það koma góðir dagar og oft

dimmir sem hellast yfir mann  gjörsamlega og þá er maður svo varnarlaus

og einmana  og yfirfullur af sorg  að það verður manni stundum um megn að horfa fram á við þá stundina.

Ég segi við þig vina mín..gráttu en haltu áfram þínu lífi. Þú átt alltaf val, hvar og

hvenær sem er að stansa.hugsa ,gráta og sakna.

Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 02:22

11 identicon

Vildi endilega að þú kíktir inn á bloggið mitt

Kær kveðja úr KOLLUKOTI

Kolbrún Harpa Kolbeinsog Sigríðardóttir (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 02:26

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.3.2009 kl. 12:23

13 Smámynd: Ólöf de Bont

Takk Siggi minn, það varst þú árið 1971 og 1974 sem kynntir mig fyrir textagerð

Ólöf de Bont, 22.3.2009 kl. 12:33

14 Smámynd: Jóhanna Garðarsdóttir

Fallega skrifað. Svo ljórænt og átakanlegt. Takk fyrir að deila þessu með okkur.

Ef til vill hafa margir foreldrar skrifað svona erfiða reynslu frá sér og e.t.v. er til heil mikið efni í fórum margra sem jafnvel væri hægt að safna saman í lítið rit. Jafnvel ég sjálf á einhverstaðar í fórum mínum línur um mína upplifun á að eignast barn/börn sem koma og stoppa stutt við. Ekki það að mér finnist það birtingahæft. En það eru svo margir sem eiga gott með að setja hugsun sína í texta sem síðar getur hjálpað öðrum að vinna sig í gegnum sorg og sorgarferli eftir missir barns. Og því miður mun það gerast áfram að foreldra eignast börn sem stoppa hér mis stutt eða lengi. Þrátt fyrir hátækni í heilbrigðismálum að þá erum við og verðum alltaf hluti af náttúrunni.

Jóhanna Garðarsdóttir, 22.3.2009 kl. 17:14

15 Smámynd: Auður Dagný Gunnarsdóttir

guð blessi ykkur

Auður Dagný Gunnarsdóttir, 22.3.2009 kl. 17:50

16 identicon

Falleg skrif hjá þér. Hef sjálf átt veikindastríð og dánarstund með tæplega 11 ára syni mínum, ótrúleg lífsreynsla.

Herdís Þorláksdóttir (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 18:10

17 Smámynd: Ólöf de Bont

Sæl Jóhanna, ég samhryggist þér vegna þíns missis.  Ég held að það séu fáir sem fara í gegnum lífið án þess að komast í tengls við sorg og missi.  Barnamissir er kannski sá sárast enda eðlilegra að þau lifi foreldrana.  Ég á til fallegar minningar um mína dóttur sem lifði í 3.5 ár í fjölfötluðum fárveikum líkama.  Ég held ekki fast í sársaukann, ég held fast í þær hlýju góðu minningar sem dóttir mín gaf mér, þroskann, lífsreynsluna og hugrekkið að kunna að sleppa.  Yngsta dóttir mín stoppaði við í 4 klukkutíma, þeir tímar voru erfiðir og dagurinn á eftir sá þyngsti sem ég hef upplifað.  Í gegnum þá reynslu náði ég að skilja þá sem týnast í gapi þunglyndis og vil ég aldrei fara á þann stað aftur.

Ég þakka öllum þeim sem hafa skilið eftir falleg orð hér á síðunni, það hafa engar gagnrýnisraddir skilið eftir sig sár orð, en þegar ég skrifaði bókina um dóttur mína þá voru margir sem gagnrýndu mig fyrir að tala opinskátt um dauðann og fötlun.

Ólöf de Bont, 22.3.2009 kl. 18:12

18 Smámynd: Villimaður

Ég táraðist við þetta.

Villimaður, 22.3.2009 kl. 18:38

19 Smámynd: Jóhanna Garðarsdóttir

Takk Ólöf og sömu leiðis. Mér datt í hug svona ljóðabók frá mörgum foreldrum og aðstandendum :) Ég er ekki í útgáfuhugleiðingum svo hugmyndin er frjáls :)

Jóhanna Garðarsdóttir, 22.3.2009 kl. 19:01

20 identicon

Þakka þér fyrir að deila þessu með okkur. Ég samhryggist þér innilega, textinn var bæði fallegur og sár en í honum var líka sátt og von. Megi Guð vera með þér og þínum.

Gústa (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 09:00

21 identicon

Hæ yndislega Ólöf,

vildi bara þakka þér fyrir að deila þessu með mér og öðrum.

Stórt knús,

Sessý

Sesselja Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband