6.2.2009 | 10:51
Nornaveiðar
Verð að segja að ég átta mig ekki alveg á því sem Kjartan skrifar. Er Kjartan ekki bara ágætis maður í sínum eigin bakgarði? Er maður oftast ekki góður heima hjá sér og í vinarboðum? - Það er nú aldeilis búið að ganga á í pólitíkinni undanfarin ár, sem hafa verið bæði góð og vond. Hreinsanir og ofsóknari hafa viðgengist í hinum pólitíska heimi frá aldaröðli og hafa menn og flokkar ekki farið varhluta af því hér heima. Símar hleraðir og menn ofsóttir ekki fyrir svo löngu síðan.
Það er verið að segja kerfinu stríð á hendur, kerfi sem hefur komið heilli þjóð á klakann og því miður þá eru oftast fólk á bak við kerfið og ætíð einn sem trónir hæst í valdapýramídanum. Þeir menn verða að taka höggið þegar kerfi hrynur og skilur eftir sig sviðna jörð.
Hvað eru það margir meðal almúgans sem þurfa að súpa seyðið af framgöngu fárra sem skiptu með sér auðlindum landsins, ætli þeir séu ekki taldir í þúsundum. Ekki heyri ég skrifað eða sagt um þá að þeir séu ofsóttir. Ofsóknirnar á hendur því fólki er að það stendur frammi fyrir því að standa uppi húsnæðislaust, margir hafa misst vinnuna og enn fleiri sparnaðinn til mögru áranna.
Ég kaus Sjálfstæðisflokkinn síðast í fyrsta sinn á mínum kjöraldursrétti, vildi gefa þessum bláa flokki tækifæri og vera ekki fordómafull í garð kapitalismans. Afhverju? Jú, í einfeldni minni trúði ég á mátt þess ríkidæmis sem við bjuggum við, það höfðu nánast allir nóg og mig óraði aldrei fyrir því að það færi sem fór. Ég hef enga fordóma gagnvart persónum þessa flokks og mér finnst Þorgerður flott kona, Björn er Björn, Geir er varkár og svo mætti lengi telja. Steingrímur kemur ætíð fyrir sjónir sem gargandi sköllótt ljón, en ég þekki ekki hjartalag hans. Sama má um Ögmund segja þegar hann skakktalar um hitt og þetta. Jóhanna er kjarnyrt kona sem hefur aldrei gefist upp en ég ætla henni ekki það að vilja refsa bara til að refsa, það er verið að kalla fólk til ábyrgðar.
Ég þarf að bera ábyrgð á gjörðum mínum og ef ég ríf kjaft í vinnunni þá er ég rekin. Ef ég borga ekki skuldir mínar þá eru eignirnar teknar. Ef ég geymi sparnaðinn minn í bankanum þá étur bankinn hann upp hvort heldur ég væli eða skæli.
Mér finnst sjálfsagt að skoða það sem úrskeiðis fór, að sannleikurinn komi upp á yfirborðið, að menn viðurkenni mistök sín (menn verða meiri fyrir það) og að menn óttist ekki að þeirra bakgarður verði skoðaður.
Kjartan er vel gefinn ríkur maður og örugglega með allt sitt á hreinu.
Pólitískar hreinsanir og ofsóknir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.