22.1.2009 | 19:36
Dagsleyfið
Dagsleyfið
Það var ekki laust við að hún væri of spennt til að geta klætt sig í kápuna og komið sér af stað. Mánuðum saman hafði hún ekki komið út fyrir landamörk hælisins nema í fylgd umsjónarfólks sem hafði farið með hana og nokkra aðra sjúklinga í bíó. Guð minn almáttugur, hvað átti hún að gera ein í strætó, ein meðal fólks sem ekki var geggjað eins og hún og hinir á hælinu. Hún var alveg viss um að allir myndu sjá það á henni um leið og hún gengi inn í vagninn að hún væri tjúlluð, brjáluð, geðveik, öðruvísi, rusl, píka, pussa ... óttinn var að æra hana og hendur hennar titruðu. Hana langaði mest af öllu að hlaupa inn á klósett og æla, æla minnimáttarkenndinni, setja puttana ofan í kok og krækja geðveikinni úr innyflunum á sjálfri sér ... rusl, píka, hóra ...
Farðu, farðu af stað, ekki hangsa, komdu, komdu. Rósa stóð þétt við hliðina á henni og hvatti hana óspart áfram. Iðaði öll á háhæluðu svörtu bandaskónum í svartrósótta kjólnum. Rósa var biluð, biluð að vilja fara svona klædd í strætó. Það gat enginn gengið í hælaháum svörtum bandaskóm og flegnum svartrósóttum kjól í gegnum háa snjóskaflana. Biluð, biluð, eins og bergmál hljómuðu þessi orð í eyrum hennar, æsandi tónarnir, gaddavírstónlist, brakandi hljóð og skær ljós. En hún hafði aldrei lent í neinni styrjöld nema styrjöldinni innra með sér. Bara séð myndir í blöðunum af fólki hlaupandi með brunnið holdið eftir að napalmsprengjur höfðu fallið á Vietnam. Biluð, biluð svartir bandaskór sem dönsuðu trylltingslega á háum snjósköflunum svartur gaddavírinn í hvítri mjöllinni og sundurtættir líkamar gulur strætisvagninn á leið með hana í gasklefann en hún vildi ekki fara vildi ekki deyja alveg strax.
Rósa ýtti óþolinmóð við henni. Komdu, sagði hún, ekki missa af strætó. Komdu, ég skal halda í höndina á þér. Þú deyrð ekki á meðan ég er með þér. Ég skal deyja fyrir þig bara ef þú kemur með mér niður í bæ, ekki missa af strætó, komdu.
Úff, bara að taka eitt skref og koma sér í kápuna, ganga síðan hægum skrefum meðfram veginum sem lá að strætisvagnaskýlinu. Ekki taka vagninn þar heldur ganga að næstu stöð og þá myndi enginn fatta að hún væri kleppari. Rósa gekk með henni og sveiflaði mjöðmunum hægum hreyfingum. Rósa, af hverju ferð þú ekki í kápu? Er þér ekki kalt? Æi, hún var alltaf að gleyma þessu, Rósa var auðvitað löngu dauð og lá köld í hellinum. Það var afturgangan hennar Rósu sem gekk með henni og afturgöngum var aldrei kalt, þær nærðust eingöngu á orku lifandi fólks sem var næmt.
Það þótti flott að geta séð afturgöngur ef maður var ekki á hælinu. Margir gátu unnið sér inn mikinn pening með því að taka á móti skilaboðum frá hinum dauðu og koma þeim áleiðis til eftirlifandi. En ekki þeir sem voru á hælinu, ef þeir sáu afturgöngu þá fengu þeir sprautu í lærið og fóru að slefa. Þess vegna talaði hún aldrei um Rósu við nokkurn mann.
Gulur strætó, hálffullur af fólki. Svört sætin sundurskorin og krot á lúnum hliðum vagnsins. Hjartað var að springa og hugsanirnar flugu eins vængbrotnir fuglar út í gráan himininn. Það var langt síðan hún hafði verið svona hrædd og óörugg. Það var föstudagur og vagninn var hálffullur af fólki á leið heim í helgarleyfi. En ekki Gerður og nafnlausi maðurinn hennar í buxunum sem földu getnaðarlim hans sem níddist á Gerði í helgarleyfunum og gerði það að verkum að hún kom alltaf aum og bogin til baka. Þau áttu sinn eigin bíl og þurftu ekki að ferðast um í gulum strætó.
Daufar skuggamyndir út um allt. Hálfdauðar manneskjur á leið í dagsleyfi huldar reyk, ekki vitandi að þær voru á leið í gasklefann. En það voru engir gasklefar á Íslandi, bara reykmettaðir strætisvagnar hálffullir af biluðu fólki á leið í leyfi.
Vagninn keyrði af stað og hún hafði fengið sér sæti aftast til að vera sem lengst frá samferðarfólki sínu. Hún hallaði sér upp að glugganum og andaði móðu á glerið. Í móðuna var hægt að teikna alls konar mynstur, jafnvel skilaboð til þeirra sem kæmu á eftir henni og settust í sama sæti og hún. Hún horfði í gegnum móðuna og yfir sjóinn sem hvíldi nánast hreyfingarlaus á flóanum. En sjórinn var ekki eins rólegur hann sýndist, undir niðri kraumaði í honum og hann beið eftir því að rísa upp og taka til sín þá sem týndu sér eitt augnablik.
Syngjandi sæll og glaður, til síldveða nú ég held..., gömul lumma hljómaði úr útvarpinu, argandi ljótt stef og ryðguð rödd fyllibyttu sem hafði týnst þegar sjórinn kallaði á hann. Sæll og glaður: draugar og forynjur, fifl og hórur snú snú, hugsanirnar snerust í hringi eins og skopparakringla og hún var rugluð, náði ekki að festa hugsanirnar og líma þær saman þannig að þær mynduðu heila heilbrigða setningu. Allt sundurslitið eins og skrykkjótt aksturlag strætisvagnins.
Henni var flökurt eins og í gamla daga þegar þau keyrðu til höfuðborgarinnar að vestan og maginn snerist þúsund snúninga og grænt gallið vall upp úr henni snú snú fara í hringi, stoppa ekki efst á Laugaveginum heldur fara heilan hring og aftur til baka. Snúa við, fara aftur í lokað öryggið og hafragrautinn.
Rósa, sat róleg við hliðina á henni með filterslausa Camel á milli fingranna. Augun ljómuðu og barmurinn tifaði ótt og títt. Ekki rugla svona vitleysu, hvíslaði Rósa að henni. Láttu ekki snú snú hugsanir tefja þig, við eigum svo margt ógert í bænum. Þurfum að koma við á mörgum stöðum og hitta marga. Við förum út við Hlemm og göngum niður Laugaveginn. Skoðum í búðarglugga og endum svo á Borginni klukkan tólf.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.