Frelsi

Ég á til rómantískar minningar sem barn um stóran suðupott í kjallaranum undir litla húsinu sem við bjuggum í fyrir vestan.  Þar gat líka á að líta stóran þvottabala, sem um helgar þjónaði sem baðakar handa litlum kroppum, og feikikröftugu þvottabretti.  Þvottadagarnir voru sérstakir og var unun að horfa á hvít lökin blakta í golunni (vindinum er nærri sannleikanum).  Konan í næsta húsi sem hafði umsjón með símstöðinni á staðnum átti rullu og þar fengu konur að setja rúmfötin í gegn svo þau sléttuðust. 

Fyrir okkur krakkana var þvottadagurinn leikur en fyrir unga móður með stóran barnaskara þrældómur.  Að vísu rennir mig minni til að fáeinum árum síðar, rétt áður en við fluttum úr litlja 2ja herbergja húsinu með kjallarann, að keypt hafði verið notuð þvottavél og þar losaði aðeins um vinnuna.

Man ekki til þess að karlmaður kæmi að þvottinum, skúringunum eða hreingerningum, en á þó veika minningu um föður sem stóð við eldavélina og eldaði og vaskaði síðan upp.

Vatikanið? Skil ekki þá stofnun, því þar virðist ríkja gífurleg kvenfyrirlitning meðal kjólklæddra karla sem príða sig með demöntum.  Þeim virðist jafnvel skítsama um litla 9 ára stúlku, sem er nauðgað af stúpföður sínum, verður vanfær af tvíburum, sem hún lætur eyða og hlýtur að launum ásamt hjálparfólki útskúfun Vatíkansins - ég efast um að Guð útskúfi á sama máta og maðurinn -

Minn maður ryksugaði heimilið í dag.  Hann setur í þvottavél og hengir upp.  Varla hægt að segja að hann eldi, en hann gerir sitt besta þó svo kvenremban ég sjái aldrei neitt gott í ryksugun hans því hornin verða útundan.... ég segi nú bara viva la tromla, hennar vegna er ég frjáls, hávaxin með íturvaxinn barm, slétta húð og ævinlega þakklát fyrir heimilistækið sem gaf mér meiri frítíma en áður var.  Bull og vitleysa, það er líka erfitt að setja í þvottavél, sækja úr henni, slá úr brotin og henda upp á snúru, taka niður af snúru, brjóta saman og setja inn í skáp.  Þetta endurtekur sig síðan vikulega allan ársins hring.


mbl.is Þvottavélin frelsaði konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Ég á svipaðar minningar, mamma var svo skipulögð að það voru ákveðnir dagar teknir frá í þvotta, bakstur og þrif. Suðupottur, stór bali og þvottaprik og vaskahúsið fullt af gufu. O the good old days.

Rut Sumarliðadóttir, 8.3.2009 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband