21.12.2008 | 14:44
Hún
Hún sat í fjörunni með tærnar djúpt grafnar í hlýjan sandinn og svipur hennar var eftirvæntingarfullur. Eldurinn kraumaði í æðum hennar og hún beið þess að svalar öldurnar umlykju líkama hennar og kældu heitar ástríðurnar. Hún var alveg ómeðvituð um þá opinberun sem átti eftir að eiga sér stað í lífi hennar fljótlega. Uppskera lífs hennar var rétt handan við sendna víkina þar sem hún hafði komið sér fyrir. Ástríðurnar voru ekki eingöngu líkamlegar. Þær voru miklu frekar fullnægingin sem fólst í því að nálgast Guð sinn og finna þessa innri ró sem kom yfir hana þar sem hún var ein í sjónum. Sjórinn hafði ætíð verið myndgerfing tilfinninga hennar og hún samsamaði sig öldugangi hans og stillu. Á þessu augnabliki var sjórinn lygn og hún fann hvernig hún endurfæddist inn í þann kjarna sem kom með henni sem ungbarn þegar hún skaust úr móðurkviði og þegar Guð sleppti af henni hendinni og gaf henni frjálsan vilja til að fara með líf sitt eins og hún vildi. Hún bar með sér kosti og galla forfeðra sinna og fyrri lífa, innsæi og þessa djúpu trú sem að lokum bjargaði henni frá glötun. Opinberunin fólst í því að hún uppgötvaði að hún bar sjálf ábyrgð á göngu sinni í gegnum lífið. Lífið hafði ekki alltaf verið henni auðvelt og hún hafði átt í erfðleikum með að skilja svo margt. Af hverju? var spurning sem æði oft brann á vörum hennar. Hvers vegna ég? var uppáhaldshugsun hennar í sjálfsvorkunn unglingsáranna og jafnvel þegar hún var barn. Lífið var eitt stórt Af hverju og svarið var ætíð Af því bara. Hún brosti framan í sólina sem vermdi hana alla. Ég er núna og mun ætíð vera núna í tímalausum heimi þar sem lífin renna saman í eina samfellda mynd í flóknum hugbúnaði Guðlegrar sköpunar. Ég var, er og verð af moldu ertu komin, að moldu muntu aftur verða, af moldu muntu aftur upp stíga. Hún yrði alltaf, bara í annarri mynd sem væri hentugri í öðru tímabelti. Lífið var hætt að vera ógnun og hún hafði vaknað upp af Mjallhvítarsvefni sínum þegar sjórinn, hinn óendanlegi prins undirmeðvitundar hennar, kyssti hana léttilega á varirnar og opnaði henni sýn inn í nýjan heim fullan af kærleik og tækifærum til betra lífs.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.