7.12.2008 | 13:45
Blóðugur gærdagur - viðkvæmir ekki lesa
Jamm. Hann var blóðugur og skrítinn dagurinn í gær og sannar að oft er stutt á milli þess að vera hraustur og liggja síðan undir hnífnum, en þetta er nákvæmlega það sem gerðist með mig í gær.
Ég var búin að njóta tónleika um morgunin þar sem dótturdóttir mín lék á flautu, skila drengnum til móður sinnar eftir næturveru hjá mér. Sitja á Cafe Paris með fjölskyldunni sem hópaði sig á tónleikana. Ég var eitthvað smágruggin og Rósa frænka komin í heimsókn eftir að hafa ekki sést í hálft ár. Svo þurfti að taka einn aukatíma í stærðfræði hvar Matrix heimur stærðfræðinnar opnaðist mér skyndilega. Mér leið skringilega og fann heitan vökva renna frá mér. Ég reyndi að flýta mér eins og ég gat til að komast út, skammaðist mín fyrir ástandið og upplifði mig óhreina kona eins og lýst er í Gamla Testamentinu.
Þegar út á götu var komið stóð ég í miðjum blóðpolli, pollróleg í rauninni.... furðulegt undir svona kringumstæðum. Gekk að bílnum mínum og lagði regnjakkann yfir sætið og keyrði mig á LSP, þar sem ég var sett í bráðaagerð og hreinsuð út.
Mér finnst þetta leiðinlegt að breytingarskeiðið fari svona með okkur konur. Ekki nóg að við fáum hitaroða í andlitið og að líkami okkar svitni ógurlega (einkenni, sem ég er að mestu laus við) heldur getur hið blessaða líffæri sem hlúir að og nærir börn á myndunarskeiði þeirra tekið sig til og búið til einhvern fjandann sem gæti orðið að einhverju sem vex og vex og þarf síðan að taka.... já, lífið er skrítið og maður veit ekki hvað býður manns handan hornsins.
Nú er ég búin að fatta að lífið er mikilvægara en einhver kreppa. Samvistir við fólk og hlýjar hendur gefa af sér meiri vexti en innistæður á bankabók eða sjóðum.
Nú er framundan hjá mér að reikna og reikna í dag, próf á morgun, sleppi prófi annað kvöld og fer í sjúkrapróf á föstudag og síðan próf á þriðjudags morgun. Ég held að allur prófkvíði og lélegt sjálfsmat hafi verið skrapað úr mér í gær og að ég bara brilli á þessum prófum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.