30.11.2008 | 12:18
Listin að læra
Ég er að klára stúdentinn af listabraut í vor. Ákvað að sem gamall "drop out" að taka mig saman í andlitinu, sérstaklega þar sem ég er atvinnulaus að gera nú eitthvað viturlegt s.s. að læra utanbókar ýmsar kenningar og formúlur. Ég lýg því ekki, en það er ekki það auðveldasta í heiminum að sitja í bekk með unglingum sem gera ekkert annað en að tala saman í kór og sofa ofan í bringuna á sér (skyldi þetta vera ég fyrir allmörgum áratugum síðan?) Mig vantar ekki vitið, vantar ekki að ég hafi skoðun á því sem er að gerast í kringum mig og lífsreynslu hef ég næga. En allt þetta dugar mér ekki til þess að ganga í þá háttvirtu stofnum sem HÍ er... stúdentinn þar ég að hafa og þar við situr.
Nú sit ég og endurskrifa glósur og reyni við þáttun, liðun og taka út fyrir sviga. Hjartað berst í brjósti mér af ótta við að fá ekki 9 í öllum fögum. Mig flökrar við tilhugsunina um próf og útkomuna úr þeim. Slæmt að vera orðin þetta fullorðinn með þessa áráttu að vilja vera með þeim bestu. Það er ekki í stöðunni núna að vera "drop out" heldur bara að ná prófunum og hafa gaman af lestri og námi og muna að það er dagleg æfing sem færir manni þekkinguna og utanbókarlærdóminn.
Ég sé fram á að fara að vinna á nýjum og áhugaverðum vettvangi svona tæplega sextug. Fram að þeim tíma læri ég, mála og móta í leir og verð í framhaldinu áhugaverð eldri dama í þéttholda líkama með rautt litað hár og eldrauðan varalit. Lífskúnstner sem hvergi er bangin.
Athugasemdir
unglingar eru dásamlegir ... ég skemmti mér alltaf konunglega í fjölbraut, sat fremst, var kennarasleikja og sussaði á börnin, einu sinni var ég í stærðfræðitíma hjá Jóni Þorvarðar (sem á hrós skilið fyrir að opna heim stærðfræðinnar fyrir mér) og þegar honum ofbauð malið í piltunum á aftasta bekk þrumaði hann yfir bekkinn "strákar, ef þið hættið ekki að blaðra læt ég ykkur sitja hjá Elínu!" ... óskastund
Elín Sigríður Grétarsdóttir, 30.11.2008 kl. 15:28
Þorgeir er minn kennari og ég verð að segja að vegna hávaða í unglingunum hafi honum ekki tekist að opna heim stærðfræðinnar fyrir mér. Ég bauð unglingunum til pizzuveislu síðasta kennsludag (stærðfræðinni) og var svaka fjör. MC Amma er voða vinsæl, voða skrýtin og ekki í takt við ömmuhlutverkið finnst þeim ungu.
Ólöf de Bont (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 17:09
Það er aðeins tvennt sem ég sé eftir í lífinu: að hafa aldrei æft íþróttir og/eða dans og ekki tekið stúdentinn. Að sjálfsögðu ekki stúdentprófsins vegna í sjálfur sér, heldur held ég að væri löngu búin að drífa mig í dýralækninn eða listháskólann ef ég hefði átt prófskírteinið ofan í skúffu.
Ég dáist að fólki ''á gamals aldri'' sem drífur sig í að taka stúdentinn, en það er ekki eitthvað sem ég mun afreka. Ekki nema að ég ákveði einn daginn að taka stúdentinn, prófskírteinisins vegna. Eða til að setjast á skólabekk í gamni og af fróðleiksfýsn. Ég sé ekki fyrir mér að ég muni fara í það (orðin þetta gömul) að taka 3-4 ár í menntaskóla/fjölbraut og svo önnur 6 í dýralækninn . Ég mun ekki hafa kjark í að breyta um starfsvettvang á milli fimmtugs og sextugs.
Takk fyrir bloggvinaboð
Jóna Á. Gísladóttir, 1.12.2008 kl. 00:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.