Jólahjálpin

Ég er að velta því fyrir mér hverjum ég geti hjálpað um þessi jól.  Eins og staðan er hjá mér í dag þá á ég nóg fyrir sjálfa mig og þá sem koma til mín í mat.  Er það heppin að geta haldið 4 veislur í mánuðinum.  En það er farið að taka í pyngjuna og ekki svo auðvelt að draga upp kortið núna þar sem tæpir 8 mánuðir eru síðan ég missti vinnuna.  Ég hefði líka getað verið búin að missa vinnuna þó svo það hefði ekki komið kreppa, ég var svo kjaftfor launþegi og lét í mér heyra ef mér misbauð.

Ég man fátæktina þegar ég var barn, þá var ekki til svona hjálparstarfssemi, enda lá við að önnur hver fjölskylda væri fátæk og stóðu þá margir að jöfnu og var munurinn ekki svo mikill á milli þeirra sem áttu pening eða ekki.  Meginþorri þjóðarinnar var fátækur en átti þó nóg.  Fáar gjafir voru undir jólatrénu en þær sem þar voru geymdu gull og gersemar og alltaf var ilmurinn af hangiframparti dásamlegur, kartöflur í jafningi og sveskjugrautur með rjóma ef hann var til.  Ég á hlýjar minningar um jólin, hvítan snjóinn sem lá yfir þorpinu, stjörnubjartur himinn og tvær skottur klæddar í nýsaumaða njáttkjóla að hlaupa holtið þvert og endilangt í svörtum stígvélum.  Jól barnæsku minnar voru oftast litaðar gleði og tilhlökkun yfir fáum en dýrmætum pökkum.  Minningar um spilakvöld á jóladagskveldi og endalausar legur undir sæng með nýjustu bókina í höndunum.

Ég velti því fyrir mér hvort við séum svona miklu fátækari núna en á sjötta áratugnum, eða hvort við séum bara orðin svo góðu vön?  Auðvitað veit ég að þarna eru úti einstæðir foreldrar sem geta ekki veitt börnum sínum þær jólagjafir sem "hin" börnin fá, að það séu öryrkjar og atvinnulausir sem þurfa nú að skera við nögl og að bilið á milli þeirra sem fagna stórt eða þeirra sem rýrara fagna er orðið að stóru Ginnungargapi. 

Það tekur í hjartað að vita að það séu margir sem eiga við sárt að binda um þessi jól.  Mér finnst líka vont til þess að vita að stór hluti heimsins getur ekki brauðfætt sig eða fengið ferskst vatn vegna þess að 5% hluti þess fólks sem býr á jarðarkringlunni er það gráðugt að það tekur til sín allt.


mbl.is Sífellt fleiri leita aðstoðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Við erum orðin góðu vön og þsð er erfitt að stíga til baka. Ég held þó að mjög margir fari verr út úr þessu nú því margir hafa fullir bjartsýni fjárfest á grundvelli einhvers sem er svo brostið og jafb-nvel búið að snúast upp í andhverfu sína. Það sem var hagstætt og gott er orðið verra en það sem var óhagstæðara áður. S.br. myntkörfulán og bara lán almennt.

Vilborg Traustadóttir, 19.12.2008 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband