Ábyrgð á eigin gremju

Mér finnst alveg ástæða til gremju hjá þeim sem fjárfestu í sjóðum bankanna, hvort heldur um sé að ræða gamla Glitni, gamla Landsbankann eða gamla Kaupþing.  Ég er gamall rauðhærður kommi (grá í dag) eða öllu heldur var gamall kommi, síðan kvennalistakommi og áfram gakk í henni pólitík.  Hér áður fyrr þegar ég var blönk og gat ekkert lagt til hliðar þá var "vinkona mín öfundin" alltaf til staðar þegar aðrir áttu meira en ég og sérstaklega þegar það átti í þykkum bankabókum sem báru góða vexti og ennþá meiri vexti um mitt ár 2006 þegar við vorum ríkasta þjóð í heimi.

Í dag gremst mér sú einstefna sem tekin er í bankamálum almennings, þeim sem létu ginnast af gylliboðum um góða ávöxtun á aukalífeyri sínum.  Ég er gröm yfir þeim töpuðu aurum sem áttu að gera mér lífið skemmtilegra þegar líkamlegur kraftur þyrri og ég ekki lengur í stakk búin til að þræla mér fyrir daglegu sukki.  Aurarnir farnir, vinnan farin, þrekið lítið þar sem ekið var á mig síðla hausts og bankarnir heimta að ég borgi þeim það sem þeir lánuðu mér með ofurvöxtum.  Ekki einu sinni boðið að skuldajafna! Og svo heimta þeir til baka sem þeir óvart greiddu úr sjóði ásamt vöxtum af innistæðulausum sjóðsreikningi. 

Mín vegna má taka vel í rassgatið á þeim sem stjórnað hafa landinu, þjóðmálum og peningastefnu.  Setja þá í gapastokk og flengja vel á þybbinn rassinn sem er siggsetinn andskoti... það væri löngu búið að setja mig í steininn ef ég stæli undan ríkinu eða bankanum.  Mér var ekki stætt þegar ég var sjálfstæður atvinnurekandi að borga ekki beina og óbeina skatta eða þá að draga að borga afborganir af lánum bankanna.  Nei, mér var á sínum tíma stillt upp við vegg og sagt að haga mér. 

En ég ber ábyrgð á eigin gremju og það er mér í sjálfsvald sett hvort ég láti þessa hluti eyðileggja annars góðan kuldaboladag.  Ekki ætla ég að gefast upp og grotna niður í gremjukasti heldur bera brjóst mín og bjóða kreppunni byrginn.


mbl.is Ítreka kröfur um bætur vegna peningabréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband